15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3414)

154. mál, milliþinganefnd

Halldór Steinsson:

Ég er með því, að þessi n. sé skipuð, svo að fáist endir og skipulag á þessi tryggingarmálefni. En ég vildi aðeins vekja athygli hv. d. á því, að ef þessi n. verður skipuð, sé fylgt þeirri reglu, sem oftast hefir tíðkazt hér á þingi, og hún er sú, að Alþingi skipi n., en ekki stjórnin. Þetta er ekki neitt vantraust á hæstv. ríkisstj. Mér finnst það aðeins eðlilegast, að Alþingi hafi íhlutun um, hvaða menn verði valdir til þessa starfa. Þess vegna hefi ég leyft mér að koma hér fram með skriflega brtt. við till. á þskj. 433, sem hljóðar svo: „Upphaf tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skipa þriggja manna milliþinganefnd“ o. s. frv.

Um leið og ég legg þessa brtt. hér fram, vil ég aðeins geta þess fyrir mína hönd, að ég get ekki séð, að n., sem til þessa starfa verður kjörin, geti verið búin að ljúka störfum sínum fyrir næsta þing, ef hún á að inna starf sitt af hendi með nákvæmni og samvizkusemi. En með því að ég vil ekki tefja framgang þessa máls, fer ég ekki fram á frekari breyt. á till.