15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3418)

154. mál, milliþinganefnd

Jón Þorláksson:

Ég er ákaflega óánægður með orðalag þessarar till. og finnst rétt að láta það koma hér fram. Þessi till. er ekki annað en áskorun til stj., og hæstv. stj. hefir það því á valdi sínu, hvort hún framfylgir till: bókstaflega eða fer eftir því, sem henni þykir skynsamlegast.

Þú er ég óánægður með það, að það er heimtað, að n. hafi lokið störfum sínum fyrir næsta reglulegt Alþingi og á að leggja frv. hennar og till, fyrir það. N. á skilyrðislaust að semja frv. til laga um alþýðutryggingar, er nái yfir sjúkra-, elli-, örorku-, slysa- og mæðra- eða framfærslutryggingar. Það er því ekki hægt að fullnægja því, sem í till. stendur, því það nær ekki neinni átt, að n. geti verið búin að gera öll þessi frv. svo þau verði lögð fyrir næsta þing. Og þótt n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri enn tímabært að bera slík frv. fram, er till. svo einstrengingslega orðuð, að það bryti í bág við till. Ég hefði því viljað, að till. væri töluvert rýmra orðuð en hún nú er. Mér er ljóst, að þetta er vandamál, og tel rétt að hefja þegar undirbúning þess, en það er ekki rétt að heimta það af n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún leggi frv. til laga um þessi efni fyrir næsta þing, ef hún kynni að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta mál væri ekki ennþá tímabært.

Þá er ég engu síður óánægður með það, að í till. stendur, að þessi n. skuli einnig gera till. um, hvort veita skuli stofnun þeirri, er verður látin annast alþýðutryggingar, einkarétt til þess að taka að sér líftryggingar hér á landi. Mér finnst náttúrlega tímabært að rannsaka, hvort rétt sé, að hið opinbera beiti sér fyrir því að koma á innlendum líftryggingum. Skal ég geta þess, að nokkuð var að því unnið meðan ég átti sæti í stj. En ég er óánægður með það, að n. sé falið að vinna á þeim grundvelli, að einhver stofnun fái einkarétt til líftrygginga. Ég tel þá aðferð mjög varhugaverða, eða jafnvel fjarstæðu, því það er sama og að meina landsmönnum að líftryggja sig annarsstaðar en hjá þessari íslenzku ríkisstofnun, jafnvel þótt einhverjir vildu tryggja sig annarsstaðar. Mér finnst satt að segja ekki miklum erfiðleikum bundið að setja hér upp íslenzka líftryggingarstofnun. Þetta er eins og hver önnur starfsemi, sem rekur viðskipti úti um allt land.

Ég er því ákaflega óánægður með orðalag till. og ætlast alls ekki til, að hæstv. stj. verði við henni á svo einstrengingslegan hátt, sem orðalag hennar gefur tilefni til.