16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

496. mál, sæsímasambandið við útlönd

Magnús Guðmundsson:

Ég stend ekki upp til að mæla á móti þáltill. Mér finnst sanngjarnt, að við notum þann rétt, sem við höfum samkv. samningnum við Mikla norræna ritsímafél., til að segja honum upp. Það er ekki hægt að neita því, að sæsíminn er farinn að slitna, svo að á honum er ekki gott að byggja til langframa. Ég get fullyrt það — því að ég var við samninginn riðinn —, að það kemur engum á óvart, þó að við segjum honum upp. Það var mikið deilt um, hvort þetta ákvæði skyldi vera í samningnum eða ekki, og engar dulur dregnar á, að til þess væri það sett í samninginn, að við notuðum það, þegar þörf krefði.

Í till. er talað um að heimila atvmrh. að útvega konungsúrskurð. Ég er ekki viss um, að nauðsynlegt sé að fá konungsúrskurð. Ég held, að ekki standi neitt um það í samningnum. Og ef það er óþarfi, ættum við ekki að vera að því.

Hinsvegar verður að ganga út frá, að samningnum verði ekki sagt upp nema alveg tryggt samband komi í staðinn.