16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (3456)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þykist ekki hafa gefið ástæðu til langra umr. um þetta mál. Ég hefi ekki sagt annað en það, sem er skjallega sannanlegt, og þarf því ekki mörgu að svara hv. 1. þm. Skagf., sem eins og gefur að skilja er þetta viðkvæmt mál.

Hann sagði, að till. þessi væri fram komin í pólitískum tilgangi, en svo er vitanlega um mörg mál hjá okkur, að þau eru pólitísk; ef hann á við með þessu, að till. sé fram borin út frá flokkspólitísku sjónarmiði, þá vil ég leyfa mér að spyrja hann, hvort hann hafi komið með þáltill., sem hann flytur á þskj. 440, í pólitískum tilgangi.

Annars ætla ég ekki út í forsögu þessa máls. Ég get fúslega viðurkennt, að það var erfiðleikum bundið að taka lán 1921, en hinu er ég ekki svo kunnugur, að ég geti fullyrt, að það hafi verið nauðsynlegt að gera það og valda með því þeim álitshnekki, sem þjóðin hefir orðið fyrir út á við.

Það er víst alveg rétt, að hv. 1. þm. Skagf. stóð lengi á móti því, að lán þetta yrði tekið, og hann óx af því á meðan hann gerði það, en grunur minn er sá, að hann hefði jafnframt vaxið meira, ef hann hefði ekki látið til leiðast að taka lánið.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að ég hefði farið með blekkingar í útreikningum mínum, er ég minntist ekki á þær gengisbreyt., sem orðið hafa síðan lánið var tekið. En það kemur ekkert þessu máli við. Það, sem aðallega lá fyrir að athuga, var, hvað vextir lánsins væru raunverulega háir og hvort borga mundi sig að taka lán nú til þess að greiða upp enska lánið.

Annars verð ég að segja, að þegar við erum að ræða þetta mál, þá kemur gengisgróðinn sem slíkur ekki til greina, þar sem vitanlegt er, að þjóðin tapaði á gengishækkun annarsstaðar. Það er því ekki hægt að reikna þjóðinni í heild hagnað af þessu. Og hv. 1. þm. Skagf. var það líka ljóst áður, þegar hann tók lánið, að gengisbreytingar áttu ekki að koma til greina.

Því vildi ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr ræðu, sem hv. 1. þm. Skagf. hélt á Alþ. 1921, þar sem hann er að verja sig fyrir því að hafa ekki tekið lán í von um að £ lækkaði móti krónu okkar.

Þar segir svo:

„Um „spekúlations“lánin verð ég aftur á móti að fara nokkrum orðum, því að svo undarlega hefir nú við brugðið, að ýmsar raddir hafa komið fram um það, að stjórnin hefði átt að taka þannig lagað lán í landi með háu gengi (Englandi eða Ameríku) og borga það svo aftur, er gengið félli. Það hefir verið reiknað út, að á þennan hátt hefðum vér getað grætt milljónir. Það hefir verið hrópað hátt um þá afskaplegu heimsku, sem ég hafi gert mig sekan í, að taka ekki þannig lagað lán. Ég er talinn óhæfur í stöðu minni fyrir það, að ég vildi ekki „spekúlera“ með fé ríkissjóðs.

En ég tek mér þetta létt, því að ég veit, að ef ég hefði gert þetta, hefði ég drýgt höfuðsynd, dauðasynd. Ég veit það, að engin stjórn í nokkru landi hefir heimild til undir nokkrum kringumstæðum að „spekúlera“ með fé ríkisins. Og það hefir aldrei verið gert hér og ég vona, að það verði aldrei gert. Að minnsta kosti get ég sagt það um núverandi stjórn, að hún mun aldrei gera það. Ég er líka alveg sannfærður um, að það eru ekki margir menn í þessum sal, sem álíta, að ríkið eigi að fást við nokkurskonar kauphallarbrask“.

M. ö. o. að gengisgróðann, sem hv. 1. þm. Skagf. skýtur sér nú á bak við, fordæmir hann niður fyrir allar hellur 1921.

Þó álít ég, að hann hafi staðið á réttara máli þá en nú, því vitanlega var þetta allt undir heppni komið; það gat alveg eins farið svo, að gengissveiflurnar yrðu okkur í óhag og £ orðið dýrara en nú.

Að endingu vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn fái ekki heilahristing, þó að minnzt sé á veðsetning tollteknanna í sambandi við þetta mál. Það, sem ég las upp um þetta atriði, sýnir bezt, hvernig í pottinn var búið um þessa lántöku. Annars ætla ég ekki að deila við hv. 1. þm. Skagf. um þetta, en ef hér er ekki um veðsetning tollteknanna að ræða, þá skil ég ekki mælt mál.

Hv. þm. þóttist aldrei hafa heyrt, að þessi veðsetning hefði staðið í vegi fyrir lántökum erlendis hin síðari ár. En ef hann vill ekki trúa mér, ætti hann að spyrja hæstv. fjmrh., sem ég vona, að sé hér nærri, og heyra hvað hann hefir að segja.