16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Magnús Guðmundsson:

Hv. aðalflm. vildi ekki viðurkenna, að það væri af flokkapólitík, að þetta mál er flutt hér, en skaut því samt til mín, hvort ég hefði ekki flutt till. í pólitísku skyni, till. um jarðræktarstyrkinn.

Ég ætla að geyma að skýra frá ástæðunni fyrir þeirri till. minni, þangað til hún verður hér til umr. En um þessa till. hv. þm. Mýr. er það að segja, að ekki er vafi á, hver tilgangur hv. þm. er með því að flytja hana.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki átt að taka enska lánið. (BÁ: Ég sagði það ekki). Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi. Hvað var það þá, sem hv. þm. sagði? Var þetta ekki meiningin? (BÁ: Ég sagði, að ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þetta mál. En mér heyrðist á hv. þm., að hann hefði ekki verið sjálfur sannfærður um, að taka ætti lánið, heldur hefði hann verið knúður til þess af öðrum). Af öðrum! Það er þá enn verra en ég hélt, að hv. þm. hefði meint. Ég hélt, að hann hefði meint, að ég hefði látið undan af sannfæringu, en ekki af kúgun.

Ég skal segja hv. þm.; að ástandið var þannig sumarið 1921, að það var ekki um annað að gera en að taka lán. (GunnS: Rétt! . Það var fyrsta drengskaparorðið, sem ég hefi heyrt af hálfu andstæðinga um þetta lán, er hv. 2. þm. Rang. sagði hér fyrir nokkrum dögum í sambandi við vaxtatill. sína, að það væri ódrengskapur að brigzla um lántökuna 1921. Það er hægt að segja það nú, að það hefði ekki átt að taka lánið, en eins og kringumstæðurnar voru1921, var ekki um annað að gera.

Það er þó undarlegast af öllu undarlegu, þegar hv. flm. heldur því fram, að gengisgróðinn komi þessu máli ekki við. En ég vil spyrja: Hvernig er unnt að ganga framhjá gengisgróðanum, þegar reikna á, hve dýrt enska lánið er? Gengisgróðinn dregst frá því, sem við þurfum að greiða. Útreikningur, sem ekki tekur tillit til gengisgróðans, verður því gersamlega rangur.

Hv. flm. tók upp orð mín frá 1921 um, að ríkissjóður ætti ekki að „spekúlera“ í gengi, og taldi undarlegt, að nú vildi ég taka tillit til gengisgróða. Það er dálítið erfitt að fást við svona röksemdafærslu. Er það ekki annað að taka lán til þess að „spekúlera“ í gengi, eða að taka tillit til gengisgróða, þegar gert er upp eftir á, hve dýrt lán hafi verið tekið? Það er alveg merkilegt, ef hv. flm. blandar þessu tvennu saman. Ég álít þetta ekkert annað en vandræðarök, þegar ekkert er annað fyrir sig að bera, því allir menn hljóta að sjá, að þegar gert er upp, hvað lánið kosti, þá á ekki að sleppa svo stórum tekjulið sem í þessu sambandi er um að ræða.

Hv. flm. sagðist ekki ætla að segja meira um veðsetninguna. Hann taldi það mál svo vel skýrt. Ég verð þó að segja hv. flm., að ég þykist vera eins vel inni í því, hvað veðsetning er, eins og hann. Og ég veit vel, að það er ómögulegt, að hér sé um veðsetningu að ræða. Við getum farið með tolltekjurnar eins og við viljum og breytt þeim eins og okkur sýnist, enda höfum við oft gert það síðan 1921. Væru þær veðsettar, gætum við þetta ekki. Veðsetning tolltekna mun og hvergi vera til nema þannig, að lánveitandinn hafi á hendi innheimtu tollanna.

Veðsetning á lausafé er líka ómöguleg nema með vissri formsaðferð, sem ekki hefir verið viðhöfð hér.

Það er náttúrlega hægt, eftir 9 ár, að níða þá, sem stóðu að enska láninu, en allir, sem fylgzt hafa með sögu þessa máls, vita það, að peningaástandið í heiminum var þá þannig, að það hefir sjaldan verra verið. Og ég þykist hafa fært rök fyrir því, að á þessum tíma var ekki hægt að fá betra lán en þetta, og ég get fært frekari rök fyrir því, að ekki var hægt að komast hjá að taka lán 1921. En ef hv. flm. vill fara út í það, hvort rétt hafi verið að hjálpa Íslandsbanka 1921, þá er ég reiðubúinn til þess, og mun þá jafnframt minna á, að núv. stjórn hefir lagt það til á þessu þingi að leggja fram 4½ milljón kr. til viðreisnar bankanum.

Hæstv. fjmrh. þarf ég litlu að svara. Ég hefi deilt um þetta mál við hann áður hér á Alþingi, og sé ekki ástæðu til þess að taka það upp aftur.

Hæstv. ráðh. taldi enska lánið óhagstætt. Ég hefi aldrei neitað því, en það var ekki hægt að fá betra lán. Ég tel sjálfsagt að borga lánið, ef hægt er að fá betra lán til að greiða það með.

Það er merkilegt, ef stj. lætur það viðgangast mótmælalaust, að neitað sé um lán vegna veðsetningar tollteknanna. Því mótmælir hún þessu ekki? Það hlýtur að vera af því, að hún metur meira flokkapólitíkina en lánstraust landsins, enda hefir það komið fram áður.