13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Auðunn Jónason:

Það var að vonum, að hæstv. ráðh. svaraði ekki og gat ekki svarað þessum fyrirspurnum mínum neinu, sem á var byggjandi eða hægt að nota sem upplýsingar í málinu. Ég verð að segja það, að þar eru sömu tökin og áður, og kom mér það ekki á óvart.

Um enska lánið er það að segja, að við tókum lán utan Danmerkur í fyrsta skipti árið 1921, og þori ég að fullyrða, að allur þorri þm. úr öllum flokkum hafi verið sammála um það, að lánið yrði tekið í Englandi, en ekki Danmörku, jafnvel þótt vaxtakjör yrðu lakari heldur en maður hefði getað vonazt eftir í Danmörku. Það var nefnil. nauðsynlegt að reyna að sýna það, að við hefðum lánstraust utan Danmerkur, og hitt er líka öllum vitanlegt, að það lán var tekið á mjög óheppilegum tíma. Við minnumst þess sjálfsagt báðir, að Norðmenn, sem hefðu haft mjög góða aðstöðu til að taka lán í Englandi og sömuleiðis Ameríku, tóku lán í Englandi með mjög líkum kjörum og við, aðeins minni afföll, en vextirnir líka hærri.

Hæstv. ráðh. sagði, að það lægi engin alvara á bak við mína till. — Jafnvel þótt svo fari, að ég taki till. aftur, liggur sú alvara á bak við hana, að ég vil benda hæstv. stj. á það, sem ég sagði áðan, og yfirleitt er það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að menn láti í ljós álit sitt um jafnstórt fjárhagsatriði og 12 millj. kr. lántöku.

Ég get vel trúað því, að það væri erfitt að taka lán síðari hluta ársins. 1929, því að það var á allra manna vitorði, að vaxtakjör hlytu að verða verri eftir því sem lengur var beðið. Maður þurfti ekki annað en að fylgjast lítillega með því, sem skrifað var í ensk blöð um slíkt. — Mér skildist á hæstv. ráðh., að það myndi verða þörf á að taka allt þetta lán, sem heimildin nær yfir, nú þegar. Ég vildi óska, að það væri ekki svo. (Fjmrh: Nei, það þarf ekki að taka það allt nú þegar). Já, það var einmitt það, sem ég vonaði, en af því að ég býst við, að vaxtakjörin verði betri þegar frá liður, ber að taka sem minnst að láni að svo stöddu, en það má ef til vill segja, að það verði kannske ekki á valdi hæstv. ráðh., hvort nokkurt lán verður tekið eða ekki. Ég spurði um, hvort ekki myndi hægt að komast að þeim kjörum, að lánið mætti endurborgast innan fárra ára, ef vaxtakjörin yrðu erfið, en fari svo vel, að við komumst úr öllu því, sem að okkur er stefnt, verða vaxtakjörin ef til vill það betri eftir fimm ár, að rétt sé að „konvertera“ láninu.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði menn úti til þess að vera viðbúna til lántöku þegar færi gæfist. En hve lengi má bíða? Náttúrlega er hægt að bíða á meðan það bráðabirgðalán stendur, sem nú er, en hefir hæstv. ráðh. von um, að þetta bráðabirgðalán fái að standa í eitt ár enn, ef þörf krefur? (Fjmrh.: Já). Þá er öðru máli að gegna. (ÓTh: Ég hefi lesið samningana; þar er alls ekkert um það sagt). Það er þá vonandi, að hæstv. ráðh. hafi það fyrir sér í þessu máli, að hann geti sagt um það með slíkri vissu, sem hann nú gerir.