08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

85. mál, útibú Landsbanka Íslands í Vestmannaeyjum

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég þarf ekki að segja mörg orð út af þessari till. Það stendur skýrt og greinilega í landsbankalögunum, að það er bankaráð Landsbankans, sem hefir algerlega ráð á, hvar bankinn setur upp útibú. Alþingi hefir í rauninni alveg gefið frá sér allt íhlutunarvald um þess háttar. Og ríkisstj. hefir heldur ekkert vald á þessu máli. Það er eins og hv. flm. tók fram, að fjmrh. getur lagt til sitt samþykki, þegar till. koma til hans frá bankaráði um stofnun nýs útibús. En til hins er ekki ætlazt, að þing eða stj. eigi þar frumkvæði að. Mér virðist því eðlilegast, að hv. þm. Vestm. snúi sér beint til bankastj. og bankaráðs.

Ég verð að líta svo á, að stj. hafi ekki rétt til að hlutast til um hinar ýmsu framkvæmdir Landsbankans. Bankinn hefir verið gerður svo sjálfstæð stofnun, að hann á að ráða öllum sínum málum sjálfur. Ég sé mér því ekki fært að greiða atkv. um þessa till.