08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3482)

153. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Á þinginu 1928 flutti ég till. sama efnis þessari till. á þskj. 153, ásamt öðrum fleiri hv. þm. Varð sú till. þá ekki útrædd, eins og kunnugt er, en var tekin upp aftur á þinginu í fyrra og þá afgr. með rökstuddri dagskrá frá hv. þm. A.-Sk. Verð ég að segja það, að mér þótti sú afgreiðsla næsta undarleg, ekki sízt þegar litið er til fyrri afstöðu núverandi stjórnarflokks til þessa máls og afstöðu aðalblaðs flokksins til þess, en sérstaklega þó, þegar litið er til þeirra röksemda, sem hv. þm. A.-Sk. lét fylgja dagskrártill. sinni.

Það ætti ekki að þurfa að minna hæstv. stj. á hina fyrri afstöðu hennar og flokks hennar til þessa máls. Framsóknarflokkurinn barðist fyrir steinolíueinkasölunni á sínum tíma, og þegar hún var afnumin, gegn andmælum þess flokks alls, varð „íhaldið“ fyrir þungu ámæli af hálfu foringja flokksins og blaðs hans, því að „íhaldið“ var það, sem stóð að afnámi einkasölunnar, eins og kunnugt er.

Þegar litið er til þessa alls, er það næsta undarlegt, að nú skuli ljúka svo hinu þriðja þingi, eftir að hæstv. núv. stj. tók við völdum, að enn hefir ekki fengizt upp tekin einkasala á steinolíu. Er þetta ekki síður undarlegt, þegar þess er minnzt, að við síðustu kosningar hélt Framsóknarflokkurinn þessu máli mjög á lofti, og hafði það sem höfuðásökunarefni á Íhaldsflokkinn, að hann hafði lagt niður steinolíueinkasöluna og þannig stigið spor til þess að koma olíuverzluninni aftur í hendur erlendra auðkýfinga. Rit og ræður framsóknarmanna þá urðu eigi annan veg skilin en að þeir myndu neyta fyrsta færis til að taka upp aftur olíueinkasölu. Að ekki þyrfti annað til þess en að koma Íhaldinu í minni hluta.

Það er ef til vill ekki rétt að segja, að nú sé einokun á steinolíunni. Þríokun væri rétta orðið, þar eð þau eru þrjú, félögin, sem steinolíuverzlunina reka. Er fullt samkomulag með þeim um það, með hvaða verði þau selja olíuna, svo að um samkeppni í verðlagi er ekki að ræða. Starfstilhögun eins þessara félaga er með þeim endemum, sem flestum mun kunn af hinni röggsamlegu lýsingu stjórnarblaðsins. Telur blaðið það fullvíst, að þetta félag, Shellfélagið, sé stofnað sem leppsfélag, til þess að útvega erlendu auðfélagi sömu aðstöðu til atvinnurekstrar og viðskipta sem íslenzkir borgarar hafa hér.

Eftir því sem ég bezt veit, mun þetta rétt hjá blaði stj. Er slíkt með öllu óverjandi, að erlendum félögum skuli haldast uppi að starfa hér í leppskjóli innlendra manna, og er annaðhvort, að hæstv. stj. fellst á ósómann eða hún lætur blað sitt segja ósatt. Telji stj. blað sitt hafa rétt að mæla um leppmennskuna, er það bein og brýn skylda hennar að skerast í leikinn. Ef hún hefst eigi að, lítur út fyrir, að hún telji skrif síns eigin blaðs markleysu eina.

Hv. þm. A.-Sk. mælti í fyrra alleinkennilega fyrir dagskrártill. sinni, þeirri er ég áður nefndi. Honum fórust m. a. svo orð í fyrri ræðu sinni:

„Og ég skal játa það, að ég álít, að það hafi verið stigið skakkt spor á þinginu 1925, þegar ákveðið var að leggja niður einkasölu á steinolíu“.

Ég veit ekki, hvað er skýlausari sönnun fyrir því, að hv. þm. A.-Sk. lítur svo á, að rangt hafi verið að leggja niður steinolíueinkasöluna, heldur en þessi orð hans sjálfs. En hafi það verið skakkt spor að leggja einkasöluna niður, var það bein og brýn skylda hæstv. stj. að stíga það spor, sem þurfti, til þess að leiðrétta þetta skakka spor, sem íhaldsstj. steig 1925. Og ef hæstv. stj. ekki gerir það nú, er allt það, sem hún og flokksmenn hennar hafa sagt í þessu máli, innantómt orðagjálfur, og ekkert annað.

En hv. þm. A.-Sk. sagði fleira en ég nú hefi haft eftir honum. Hann viðurkenndi það, að af því gæti stafað mikil hætta, ef erlend auðfélög yrðu einvöld um alla olíuverzlunina hér við land. Tók hann svo til orða í því sambandi, þessi hv. þm.:

„Ég skal ekki lá þeim mönnum, sem óar við því, að þessi útlendu olíufélög geti orðið einvöld hér til eilífðar“.

Ég veit ekki, af hverju hv. þm. A.-Sk. hnýtti þessari „eilífð“ þarna aftan í. Því að væntanlega lítur hann svo á, að hætta geti stafað af þessum auðfélögum fyrir okkur Íslendinga, þó að þeim lánist ekki að halda okkur í hrammi sínum til eilífðar.

En hver var þá ástæðan til þess, að hv. þm. A.-Sk. kom með þessa dagskrártill. sína? Hún var sú, að því er hann sagði, að ekki væri nógur undirbúningur fyrir hendi til þess að taka upp einkasölu á steinolíu. Þetta var sú eina ástæða, sem hv. þm. hafði fram að færa gegn því, að þáltill. yrði samþ. En það vildi nú svo skemmtilega til, að hæstv. forsrh. sló þessi vopn úr höndum hv. þm. A.-Sk., þegar hann síðar tók til máls. Hæstv. forsrh. fórust svo orð:

„Það er því tiltölulega auðvelt nú að taka ákvörðun um, hvort taka skuli upp einkasölu“.

Þessi orð hæstv. forsrh. sýna, að hann var sammála mér í fyrra um það, að engir sérstakir örðugleikar væru á því að taka aftur upp einkasölu á steinolíu, enda virðist þar ekki þurfa annað að gera en að tryggja einkasölunni nægilegt rekstrarfé, sem heimild er til í l., og ef til vill að fá eignarnámsheimild á geymum olíufélaganna, auk ýmislegs annars, sem stendur í sambandi við þessa verzlun.

Af öllu þessu, sem ég nú hefi dregið fram, mætti mönnum þykja það næsta undarlegt, að lok þessa máls skyldu verða með þeim hætti í fyrra, sem þau urðu. En þessi dagskrártill., sem málinu var vísað frá með, hljóðar á þessa leið:

„Með því að ríkisstj. getur hvenær sem er gripið til heimildarl. frá 1917 um verzlun olíu, og í trausti þess, að stj. hafi nánar gætur á því, að landsmönnum verði ekki íþyngt af olíukaupmönnum, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá“.

En hæstv. forsrh. hefir fleira sagt í sambandi við þetta mál en ég þegar hefi drepið á. Hann hefir t. d. látið svo um mælt, „að heimildarl. væru eins og sverð, sem hanga ætti yfir höfðum olíufélaganna og skapa þeim þann ótta, að þau misnotuðu ekki afstöðu sína til þess að íþyngja landsmönnum í verðlagi á olíunni“. Jafnframt lofaði hæstv. forsrh. að láta rannsaka olíuverðið hér og nærlendis, til þess að ganga mætti úr skugga um það, hversu mikil álagning olíufélaganna væri, hvort hún væri hæfileg eða óeðlilega mikil. Um þetta fórust hæstv. forsrh. orð á þessa leið:

„Ég er einnig sammála hv. flm. um það, að nú sé kominn tími til að taka til rannsóknar verðlag á steinolíu hér á landi, samanborið við verð annarsstaðar. Ríkisstj. mun og sjá um, að það verði tekið til gaumgæfilegrar rannsóknar“.

Svo lauk þessu máli í fyrra, og síðan hefir hér vitanlega ekkert í því gerzt. Ég innti hæstv. forsrh. eftir því á eldhúsdaginn, hvað liði rannsókn stj. á olíuverðinu hér og í nærliggjandi löndum, og fékk það svar, að Fiskifélaginu hefði verið falin þessi rannsókn og að skýrsla um málið lægi fyrir. En enginn þm. og engin þingn. hefir fengið að sjá þessa skýrslu Fiskifélagsins. Á eldhúsdaginn lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að hún mundi lögð fyrir þingið, en ég hefi spurt sjútvn. beggja deilda um það, hvort þeim hefði borizt þessi skýrsla, en hvorug sú n. hefir séð skýrsluna, og engar aðrar þingn.

Mig furðar mjög þessi háttsemi hæstv. forsrh. Ég dreg ekki í efa, að hann hafi látið framkvæma einhverja rannsókn í þessum efnum, en að þinginu skuli ekki gefast kostur að kynna sér niðurstöðu þessarar rannsóknar, er með slíkum endemum, að ósæmilegt er, því að það er þó þingsins að dæma um það eftir skýrslunni, hvort álagningin er hæfileg.

Ég þarf ekki að minna hv. þm. á það, hversu mikið er hér í húfi fyrir okkur Íslendinga. Hér við land eru um 700 vélbátar stærri og smærri, sem 5000 manns eiga atvinnu sína undir. Auk þess munu vera hér eitthvað um 1000 bifreiðar. Veltur það á miklu fyrir þessar atvinnugreinir, hvernig verðlagi og verzlun er háttað á þessari nauðsynjavöru.

Ég benti á það í fyrra, að ýmsar líkur benda til þess, að eitt þeirra olíufélaga, sem hér starfa, mundi hafa stórar fyrirætlanir í huga. Þeir menn, sem að því standa, verzla með ýmsar nauðsynjar sjávarútvegsins, salt, veiðarfæri, smurningsolíu o. fl. þess háttar, auk þess sem þeir verzla með fisk til útflutnings.

Ég benti ennfremur á það, að eins og bankastarfsemi er enn háttað hér á landi, er erfitt fyrir bátaútveginn að fá innhlaup í bankana. Það er því ekkert eðlilegra en að bátaeigendur leiti lána hjá því olíufélagi, sem bátarnir skipta við, en afleiðing þess verður sú, að ef harðnar í ári, geta félögin samið um skuldirnar með þeim hætti, sem einkenndi skuldaverzlunina í gamla daga, þannig að þau leggi bátaeigendum þær kvaðir á herðar að kaupa af sér auk olíunnar aðrar nauðsynjar útgerðarinnar, svo sem salt, smurningsolíur, veiðarfæri o. fl. þess háttar — og taki svo fiskinn upp í skuldina.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en get vísað til þess, sem ég sagði í sambandi við þetta mál í fyrra og 1928. En ég verð þó að segja það, áður en ég sezt niður, að ég tel það bein brigðmæli við kjósendur, ef stj. situr þetta kjörtímabil út án þess að leiðrétta það óhappaspor, sem íhaldsstj. steig 1925, þegar hún lagði niður steinolíueinkasöluna. Fjöldi kjósenda kaus með Framsóknarflokknum við síðustu kosningar, vegna þess að þeir treystu því, að þessi afglöp yrðu bætt, ef „íhaldið“ færi frá og „framsókn“ tæki við. Er það nú á valdi hæstv. stj., hvort hún vill efna orð sín, gera að vilja kjósenda í þessu efni og bæta afglöp íhaldsstj., eða gerast sporgengill íhaldsmanna og nota enn íhaldslarfana, sem hæstv. forsrh. lýsti svo skemmtilega á eldhúsdaginn í fyrra. Mun þá mörgum þykja sem hæstv. stj. og flokkur hennar semji sig mjög að sið Íhaldsfl., þess flokks, sem hæstv. stj. og flokkur hennar hefir borið þyngstum ámælum fyrir afskipti sín af stjórnmálum. Mun það sýna sig við atkvgr., hvaða leið hæstv. stj. og flokkur hennar velur.