08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

153. mál, einkasala á steinolíu

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég sé enga ástæðu til þess að skattyrðast við hv. þm. Ísaf. út af þessari till., en get hinsvegar svarað þessum spurningum, sem hann lagði fyrir mig.

Hv. þm. spurði fyrst, hvort ég áliti núverandi fyrirkomulag á olíuverzluninni heillavænlegt til frambúðar. Þessu get ég hiklaust svarað neitandi. Olíuverzlunin er nú algerlega í höndum hringa, en slíkt getur ekki blessazt til lengdar. Enda hafa verið gerðar ráðstafanir af hálfu míns flokks til þess að undirbúa annað skipulag, og það er í rauninni ekki nema tímaspursmál, hvenær hafizt verður handa um framkvæmdir í þeim efnum.

Hin spurningin var töluvert loðin og óskýr. Virtist mér hv. þm. helzt vera að spyrja um það, hvað ég áliti um útlenda leppmennsku. Ég get svarað þessu umsvifalaust á þá leið, að ég álít alla leppmennsku ákaflega fyrirlitlega, í hverri mynd, sem hún birtist, en hinsvegar heyrir ekki undir mína stjórnardeild að rannsaka, hvort slík leppmennska eigi sér stað í vissum tilfellum.