13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Ég tek til máls aðallega til þess að þeir, sem lesa umr. þessa máls, sjái, að ég hefi ekki þegjandi sætt mig við ýmislegt, sem fram hefir komið í umr. Ég man, að hæstv. ráðh. sagði við 2. umr. og segir það enn, að hann hefði allar ástæður til að telja það víst, að auðvelt yrði að endurnýja samninginn við Barclay's banka um þær 250 þús. kr., sem um er að ræða. En ég tel engar líkur til þess, því að í samningnum stendur, að bankinn muni taka til athugunar endurnýjun lánsins, ef aðstæður séu óbreyttar. En aðstæður eru ekki óbreyttar, og þess vegna tel ég víst, að samningurinn fáist ekki endurnýjaður.

Ég hefði viljað spyrja hæstv. fjmrh., hvort honum hafa ekki borizt á síðasta ári tilboð um lánveitingar handa ríkissjóði, og ég skora á hæstv. ráðh., ef honum hafa borizt slík tilboð, að skýra hv. þd. frá þeim og með hvaða kjörum lánin hafa verið boðin. Ég hefi ástæðu til að halda, að a. m. k. eitt slíkt tilboð hafi komið, sem ekki var ástæða til að ganga framhjá, fyrir milligöngu Páls Torfasonar, sem áður hefir verið riðinn við ýmsar lántökur fyrir ríkissjóð og þekkir ráðamenn þeirra stofnana, sem veita ríkjum lán. Mér, þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. hefði þetta tilboð í huga, þegar hann gefur deildinni skýrslu þá, sem ég hefi beðið um.

Ég sé ekki ástæðu til að tala um brezka lánið að þessu sinni. Mér þykir leiðinlegt, hve lítinn skilning hæstv. fjmrh. hefir sýnt í því máli; hann hefir varla sagt svo eina setningu, að næsta setning riði ekki í bága við hana. Annaðhvort verðum við að dæma eftir þeim aðstæðum, sem voru fyrir hendi, þegar lánið var tekið, og segja: Við áttum ekki annars úrkosta, — en ef maður vill það ekki, þá er rétt að leggja til grundvallar hina raunverulegu útkomu. Við fengum 500 þús. £, sem við endurgreiðum síðan með hærra gengi og græðum mismuninn. Þetta lán hefir verið notað til þess að greiða aðrar erlendar skuldir, og þar sem verðhlutfallið hefir raskazt á þann hátt, að við borgum með hærra gengi á okkar peningum, er um ótvíræðan gróða að ræða fyrir okkur. Ef þetta fé hefði verið borgað innanlands, er allt öðru máli að gegna. Þetta er ekki þeim að þakka, sem lánið tóku, — það er alveg rétt, — en hitt er líka rétt, að hin erfiðu kjör landsins voru ekki þeim að kenna, sem lánið tóku. Allt varð þetta fyrir rás viðburðanna.

Um till. hv. þm. N.-Ísf. get ég sagt það, að það er mjög eðlilegt, að þær raddir komi fram, að lán í þessu augnamiði verði að vera með vissum hámarksvöxtum, en undir núverandi kringumstæðum álít ég ekki hyggilegt að setja nein slík skilyrði. Við megum þakka fyrir að fá lán, þó að með harðari kjörum verði en hv. þm. N.-Ísf. vill. Ég vil a. m. k ekki með mínu atkv. binda ríkisstj. við slík skilyrði; ég vil heldur sjá, hverju fram vindur. Ég teldi því heppilegt, ef hv þm. N.-Ísf. gerði eins og hann hafði orð á og tæki till. aftur.