08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3491)

153. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Það eru örfá orð út af því, sem hv. 4. landsk. sagði. Hann talaði um, að ég væri rogginn. Mér fannst hann, þessi nýskipaði bankastjóri, vera nokkuð rogginn líka, og ætti honum að þykja fara vel á því, að ég líkist honum.

En þó að jafnaðarmenn hér á þingi finni ástæðu til að reyna að skipta liði við Framsókn, eða „litla íhaldið“, núna undir landskjörið, þá ætla ég ekki að skipta mér af því. Þeir rísa upp úr sætum sínum, hver eftir annan, jafnaðarmennirnir, og deila á hæstv. stj. En menn skilja, hvað liggur á bak við. Það er hræðslan um að heimta ekki alla kjósendurna aftur úr sambandinu við „litla íhaldið“. Ég skal ekki segja, hvort svo verður, en ég skal láta hv. 4. landsk. vita, að ég mun ekkert skipta mér af, hvernig þeirra lið skiptist.

Hv. 4. landsk. sagði, að ég hefði eitthvað kastað að hv. 2. þm. Reykv. út af þessu máli. Það gerði ég ekki. Ég lét hann liggja algerlega milli hluta.

Það var eins og hv. þm. áliti það einhverja sönnun fyrir því, að Shellfélagið væri ekki löglegt, að það hefir fengið hæstaréttardóm fyrir því, að það væri innlent og löglegt. Þetta er dálítið undarleg aðstaða, en hinsvegar er það eðlilegt, að menn, sem gera lítið úr hæstaréttardómum, vilji gjarnan fá hann afnuminn, og ég verð því að fyrirgefa hv. 4. landsk., þótt hann hafi gert ítarlegar tilraunir til þess að skipta um menn í þeim rétti. En það skal ég segja honum, að ekki mundu duga nein mannaskipti. Þetta mál mundi alltaf fara á sama veg.

Hv. þm. sagði, að þessi félög, sem nú verzluðu hér, ættu engar þakkir skildar. Enginn hefir nú reyndar farið fram á að fá neinar þakkir. En þó mætti benda á, að hv. þm. Vestm. hefir lýst því yfir, að þegar olíuverzlunin varð frjáls, hafi stórum lækkað verð á olíu. Ég býst við, að hægt sé að trúa orðum hans, því að hann er fulltrúi fyrir hérað, sem á sennilega einna mest undir góðri olíuverzlun. Ekki er heldur hægt að væna hann um hlutdrægni Shellfélaginu í hag, því að hann er umboðsmaður fyrir félag hv. 2. þm. Reykv.

Ef kryfja ætti þetta mál til mergjar, held ég því, að þetta innlenda félag ætti fremur þakkir skildar fyrir, að það hefir orðið þess valdandi, að olíuverðið hefir fallið svo mjög.