08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

153. mál, einkasala á steinolíu

Jón Baldvinsson:

Það kemur venjulega fyrst upp í huga hv. l. þm. Skagf., hvernig kjósendur muni líta á málið. Hv. þm. er víst eitthvað hræddur um, að við jafnaðarmenn munum draga að okkur atkv. vegna þessa máls. (JJós: Það er engin hætta á því). Það er nú svo um þennan hv. þm., að hann hefir nú 2 síðustu kosningarnar alltaf fengið færri og færri atkv., alltaf verið að tapa. Það eru alltaf að verða færri og færri kjósendur, sem trúa honum til þingmennsku. Sú eina röksemd, sem hv. þm. færði fram, var sú, að hv. þm. Vestm. hefði sagt fyrir 2–3 árum, að olíuverðið hefði lækkað stórum þegar verzlunin var gefin frjáls. Það getur vel verið, að hv. þm. Vestm. hafi sagt þetta, og getur líka verið rétt, að olíuverðið hafi lækkað, en það sannar ekkert gegn einkasölunni. Lækkað olíuverð getur stafað af því, að olíuverðið lækki á heimsmarkaðinum, svo að það, sem hv. 1. þm. Skagf. áleit röksemd, er það ekki þegar nánar er á litið.

Þá var hv. 2. þm. G.-K. með aðdróttanir til okkar jafnaðarmanna, að við meintum ekkert með þessu máli. Nú hefir hv . þm. Ísaf. boðizt til þess að sýna það, hvort okkur er alvara í þessu máli eða ekki. Ef flokkur hv. þm., sem hann telur sig fyrir, vill koma þessu máli fram og leitar samkomulags við okkur, skal hann sjá, hvort stendur á okkur. (ÓTh: Ég vil engin mök eiga við þessa þm.). Þessi hv. þm. hefir þá strax tekið þessar aðdróttanir til okkar aftur.

Annars er rétt að benda á þann mun, sem er í röksemdafærslu hjá okkur jafnaðarmönnum og hv. 2. þm. G.-K. Ég ætla ekki hér að fara að verja hæstv. stj. eða einstaka ráðh., en það er svo, að þótt hv. þm. sé þeim alveg sammála, setur hann sig samt ekki úr færi að skamma þá. Litla og stóra íhaldið berst ekki um mál, það berst um ráðherrastólana. Það er t. d. ekki ólíklegt, að hv. 2. þm. G.-K. vildi komast í sæti dómsmrh. (ÓTh: Það er flekkað sæti nú). Við jafnaðarmenn deilum á báða þessa flokka, þegar þeir ganga á móti málum okkar.

Ég álít það ekki rétt hjá hv. 2. þm. G.K., að dómar hæstaréttar séu svo heilagir, að enginn megi um þá tala eða skoðun hafa um þá. Ég hefi t. d. heyrt, að prófessorar háskólans taki stundum óþyrmilega á dómum hæstaréttar og sýni nemendum sínum í kennslustundum, hve herfilega farið hefir verið framhjá lögunum eða þau misskilin. (SE: Þeir lærðu eru ekki ávallt beztu dómararnir; það er viðurkennt í veröldinni). Þar sem prófessorar háskólans hafa þetta fordæmi fyrir þeim, sem þeir eru að kenna, finnst mér rétt, að leikmenn geri það líka.

Ég skal svo ekki fara frekari orðum um þessa till. Það mun verða skorið úr því við atkvgr., hvernig fer um hana. Ég hefi ennþá ekki heyrt nein rök færð móti henni. Eina tilraunin, sem gerð hefir verið til að færa fram rök gegn málinu, var það, þegar hv. 1. þm. Skagf. vitnaði í gamla ræðu hv. þm. Vestm., en það sannaði heldur ekki neitt.