08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

153. mál, einkasala á steinolíu

Jóhann Jósefsson:

Þetta steinolíuskraf sócíalista tekur víst enginn mjög alvarlega. Þeir „stilla upp“ m. a. með tillögur um einkasölu á steinolíu, þó þeir viti, að enginn tekur mark á þeim. En hæstv. stj. og flokkur hennar má sjálfri sér um kenna, að þetta mál er hér fram komið, því hún hefir hvað eftir annað gefið jafnaðarmönnum undir fótinn, svo að þeir álíta sig í sínum fulla rétti, þótt þeir haldi áfram að krefjast einkasölu á hverri vörutegund eftir aðra.

Hv. 4. landsk. talaði um, að ég hefði fyrir nokkrum árum sagt eitthvað um einkasöluna, sem ekki hefði við rök að styðjast. Það, sem ég benti á, var sú staðreynd, að olíuverðið hefði lækkað eftir að einkasalan var afnumin. Þetta er augljóst mál. Ef þetta eru ekki rök, veit ég ekki, hvað hv. 4. landsk. vill hafa.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði skynsamlega um málið, enda hefir hann reynslu í þessu efni. Ég ætla, að hann viti fullvel, hvað það er að verzla með olíu í samkeppni. En hann vildi ekki kannast við þá ástæðu fyrir því, að ríkið færi að skipta sér af olíuverzlun, að félögin seldu vöruna dýrari en þörf væri á, heldur kom hann með þá almennu ástæðu, að reksturinn yrði ódýrari, ef allt væri undir einni stjórn.

Hv. þm. sagði, að maður yrði að hafa svo sterka sannfæringu, að maður vildi aðeins einkasölu, og lokaði augunum fyrir öllu öðru. Menn yrðu að vera reiðubúnir að leggja á sig og aðra það ok, sem af því leiddi.

Það er ekkert við þessu að segja. Það er eitt af stefnuskráratriðum jafnaðarmanna, sem hér er teflt fram. Ég veit ekki til, að raddir neinstaðar af landinu hafi óskað eftir einkasölu aftur. Þvert á móti. Eins og menn vita, er olíuverzlunin rekin í nokkuð harðri samkeppni, og sú lækkun, sem verður af þeirri samkeppni á vöruverðinu, fellur í skaut þeirra, sem kaupa vöruna.

Það var dálítið eftirtektarvert bjargráð, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á til þess að koma í veg fyrir skuldasöfnun, ef ríkið tæki að sér olíuverzlunina. Honum er ljóst, eins og öðrum kaupsýslumönnum, að viðskiptamönnum verzlana hættir mjög til að safna skuldum, og þá ekki síður hjá olíuverzlunum en öðrum. En hann hafði svo sem ráð á takteinum til að koma í veg fyrir, að menn söfnuðu skuldum hjá steinolíueinkasölu ríkisins, þó hún væri sett á stofn. Nú vil ég spyrja hv. þm., hvort hann er mér ekki sammála um það, að þó mikil hætta sé á skuldasöfnun hjá einstaklingsverzlunum, þá sé meiri hætta á henni hjá ríkisverzlun. (HV: Nei, nei!). Jæja, þjóðráð hv. þm. var það, að bæta einu sjóveði ofan á þau, sem fyrir eru. En hræddur er ég um, að einhverjum af smærri útgerðarmönnunum þætti orðið þröngt fyrir dyrum, ef þeir þyrftu ekki einungis að veðsetja ófenginn afla fyrir kaupgreiðslum, heldur einnig fyrir olíu.

Það væri alls ekki til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, þó tekin væri ríkiseinkasala á steinolíu. A. m. k. ef hún væri eins rekin og hún hefir áður verið rekin hér, þá væri hún útveginum aðeins til tjóns og baga.

Það hefir verið talað um atkvæðaveiðari sambandi við þetta mál. Ég held, að hv. jafnaðarmenn séu alls ekki glöggir á vilja fólksins, sem við sjávarsíðuna býr, ef þeir halda, að þeir vinni sér atkvæði með því að berjast fyrir steinolíueinkasölu.