13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Mér fannst hæstv. fjmrh. draga nokkuð í land í síðustu ræðu sinni, en ég vil segja honum, að ég get ekki látið hjá líða að svara honum, þegar annað eins rakaleysi kemur fram hjá honum og áðan. Hæstv. ráðh. var að vísa til erlendra fjármálamanna. Ég veit ekki, við hverja hann hefir talað. En ég skora á hæstv. ráðh. að gefa yfirlýsingu frá erlendum fjármálamönnum um, að enska lánið sé með samtals 10% vöxtum. Mér kemur ekki á óvart, þó að fjármálamenn í Ameríku viti um þetta lán; þeir fylgjast svo vel með öllu, sem gerist í fjármálum á milli ríkjanna: En mér finnst býsna undarlegt, að hæstv. ráðh. vill í þetta sinn byggja alveg á erlendum fjármálamönnum. Þegar þeir aftur á móti senda aðvörunarskeyti í Íslandsbankamálinu, þá telur hann ekkert að marka þá.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann væri ekki viss um, að það hefði verið skynsamlegt að borga skuldir, landsins, sem áfallnar voru 1921. Það má kannske segja svo, en það er nú einu sinni bæði lagaleg og siðferðisleg skylda okkar, og sú kenning ætti sízt að koma frá sjáfri ríkisstj., að menn ættu ekki að borga sínar skuldir.

Það væri ekki gott, ef slíkt spyrðist, að sjálf stj. væri að kenna þegnum sínum, að álitamál væri, hvort þeir ættu að borga skuldir sínar. Ég get ekkert sagt um, hvort það er vafamál, að ríkið hafi næga tryggingu fyrir lánum til Íslandsbanka. Ég hugsa, að tryggingar hafi verið fullgildar, en ef eitthvað hefir á það brostið, hafi hæstv. fjmrh. kippt því í lag.

Ég sagði, að við hefðum tekið lán, sem ekki væru hagstæðari en enska lánið. Það er alveg rétt. Við tókum lán í Danmörku, þegar íslenzka krónan var jöfn dönsku krónunni; það er nú dýrara en enska lánið. Við verðum að borga hverja danska krónu með kr. 1,20 íslenzkri. Alveg það sama kemur fram í vöxtunum. Þetta verður hæstv. ráðh. að taka til athugunar, og ef hann gerir það, er ég hér um bil viss um, að hann sér, að ég hefi rétt að mæla.