13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Jónsson:

Hæstv. ráðh. má ekki lá hv. þm., þó að þeir séu nokkuð kvíðafullir út af þessari lántöku, eins og nú standa sakir, þegar á það er litið, hversu kauphallarbrask og hverskonar bankahrun getur sveiflað vöxtunum upp og niður. Það er því ekki nema eðlilegt, að sú stj., sem fer fram á heimild til að taka mikið lán, en er svo breytt, þegar um bankahrun er að ræða, sé krafin skýrsla um það, hvernig peningamarkaðurinn stendur. Ég vil, að hæstv. ráðh. gefi nú slíka skýrslu og lýsi því, hvaða áhrif lántakan hefði á markaðinn. Það er smáræði, sem um er að ræða, lán, sem nemur meiru en allar íslenzkar ríkisskuldir. (Fjmrh.: Þetta er engin ný heimild). Ónei, en það er farið fram á endurnýjun nú; í fyrra átti líka að fá slíka endurnýjun, og ég var þá á móti því líka. Hinsvegar sé ég ekki, hvaða hemja er á því, að ráðast á stj. fyrir að taka lán, sem þingið hefir heimilað henni að taka. Árið 1921 var heimildin til að taka enska lánið samþ. í e. hlj. í báðum deildum. Flokkaskipting var þá eitthvað rugluð, en mig minnir, að núv. hæstv. fjmrh. og hans flokkur væru aðalstuðningsmenn stj. Það kemur því úr hörðustu átt, að einmitt sá flokkur gerir lánið að stöðugu árásarefni. Það er meira en litið auðnuleysi, að við skulum búa við stj. sem er svo lánlaus, að vera með þessi tvö mál á prjónunum í einu — heimild til að taka lán og svo Íslandsbankamálið. Hæstv. stj. er í senn að gerast mesti skuldakóngur hins íslenzka ríkis og spilla lánstrausti þess í útlöndum, Annars er hv. 1. þm. Skagf. miklu kunnari lántökunni frá 1921 en ég, enda hefir hann svarað hæstv. fjmrh. Það er skrítið, að hæstv. stj. skuli vera að básúna það, hve lánið sé vont um leið og hún básúnar, að háir vextir spilli lánstrausti landsins. Henni er nær að vera ekki að ríða undir erlenda fjármálamenn, sem segja, að við getum ekki fengið almennilegt lán, af því að enska lánið hafi verið svo dýrt. Ég verð að segja, að ég hefi aldrei heyrt þessa 10% vexti nefnda fyrr.

Ég er ansi hræddur um, að hæstv. fjmrh. eigi erfitt með að sneiða hjá Íslandsbankamálinu, þegar hann er að tala um þetta lán, sem nú á að taka. Hann getur að vísu sneitt hjá því að svara hv. þm., þegar þeir krefja hann sagna, en það verð ég að segja, að ef erlendir fjármálamenn hafa haft svona opin augun fyrir enska láninu, má nærri geta, hvort þeir hafa ekki opin augun fyrir því, sem er að gerast nú.

Hv. 1. þm. Skagf. svaraði hæstv. fjmrh. á þá leið, að mismunur á gengi hefði gert það að verkum, að kjörin á enska láninu hefðu orðið betri en á ýmsum lánum, sem við hefðum tekið: „Já“, segir hæstv. fjmrh., „en hvað kostaði það okkur að hækka krónuna?“ Ég er alveg hissa á hæstv. ráðh. Þetta kemur málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hitt er málinu alveg jafnóviðkomandi, að ekki græddist á enska láninu í Íslandsbanka. Hæstv. ráðh., sem segist hafa menn á verði úti um lönd til að athuga rétta augnablikið til lántöku, verður að vera á verði sjálfur. Hann hefði átt að leitast við að fá lán, áður en Íslandsbanka var lokað. En það er ekki von á viturlegum aðgerðum af manni, sem hélt því fram, að lokun Íslandsbanka yrði til að styrkja okkar lánstraust.

Brtt. hv. þm. N.-Ísf. held ég að sé þýðingarlaust að samþykkja. Sumt af þessu fé er ekki hægt að komast hjá að fá lánað, og fyrir því má ekki setja mín skilyrði. Enda mundi fara svo, að ef till. yrði samþ., mundi stj. ekki þurfa annars en að fá frv. fellt, og þá stendur heimildin frá í fyrra. Eftir það, sem gerðist hér í gær, er hlægilegt að setja þau skilyrði, að íslenzka ríkið megi ekki taka lán með hærri vöxtum en 5%.