17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3523)

388. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi mega vona, að þetta mál fengi léttari og ljúfari afgreiðslu í þessari hv. d. heldur en viðtökurnar voru og það, hversu gengið hefir að fá það til umræðu.

Ég býst við, að flestir hv. þdm. hafi séð auglýsingu frá spítalanum í Landakoti þess efnis, að þar sem ríkisstj. hefði ákveðið breytingar á daggjaldi fyrir berklasjúklinga, neyddist spítalinn til að krefja sjúklingana sjálfa eða sveit þeirra um viðbótargjald umfram það, sem ríkissjóður greiddi.

Hæstv. stj. hefir tekið sér vald, að því er hún segir sjálf, samkv. 5. málsgr. 14. gr. berklavarnalaganna til þess að ákveða hámarksdaggjald fyrir berklasjúklinga, og ennfremur til þess að neita að greiða ljóslækningakostnað fyrir styrkhæfa berklasjúklinga annarsstaðar en í Kristnesi, á Vífilsstöðum og í Reykjavík.

Þessar ákvarðanir sínar byggir hæstv. stj., að því er ráða má af bréfi hennar, á því, að í nefndri málsgr. 14. gr. berklavarnalaganna er henni gefin heimild til þess að ákveða hámarksdaggjald fyrir berklasjúklinga í sjúkrahúsum. En í sömu gr. er gert ráð fyrir í fyrsta lagi, að stj. skuli jafnan fyrst leita samninga við sjúkrahúsin um daggjald. Síðar í gr. eru svo ákvæðin um það, að stj. geti sett hámarksdaggjald, auðvitað því aðeins, að árangurslaust hafi verið reynt að ná samningum við viðkomandi sjúkrahús.

Samkv. berklavarnalögunum á ríkissjóður tvímælalaust að greiða allan kostnað af sjúkrahúsvist berklasjúklinga, sem sjálfir ekki hafa efni á því. Sýslufélögin greiða síðan sínar 2 kr. pr. íbúa til ríkissjóðsins. Það er hluti héraðanna. Að láta sveitar- eða sýslufélögin greiða hluta af daggjaldi sjúklinganna, auk framlagsins til ríkissjóðs, er að brjóta lög á þeim. En þeir sjúklingar, sem geta greitt fyrir sig samkv. lögunum, eiga að gera það nú.

Auk þess sem hæstv. stj. hefir tekið sér það bessaleyfi að ákveða daggjald sjúklinga án þess fyrst að leita samninga við sjúkrahúsin, hefir hún og framið það ranglæti gagnvart sjúkrahúsunum að ákveða sama daggjald fyrir sjúklinga í öllum sjúkrahúsum á landinu. Hún segir, að gjald þetta sé miðað við kostnaðinn á Vífilsstöðum og Kristnesi, en ég veit ekki til, að hún hafi lagt nein gögn fyrir þingið, er sýni, að svo sé í raun og veru. Ég hefi ekki séð þá reikninga, sem hæstv. ríkisstj. byggir þetta á, en það geta ekki verið reikningar Vífilsstaða fyrir 1926. Þá hefi ég athugað og veit, að kostnaður þar var þá meiri á dag en 5 kr. fyrir fullorðna og 4 kr. fyrir börn. Er þá vitaskuld fjarstæða ein að hugsa sér að ákveða sama daggjald í sjúkrahúsum úti um land eins og á Vífilsstöðum.

Ég er sérstaklega kunnugur viðskiptum ríkisstj. við eitt sjúkrahús hér á landi, sem er sjúkrahúsið á Ísafirði. Ég geri ráð fyrir, að önnur sjúkrahús hafi nokkuð sömu sögu að segja.

Eftir að ríkisstj., án nokkurra samningaumleitana, hafði tilkynnt sjúkrahússtjórninni á Ísafirði, að hún mundi ákveða hámarksdaggjald fyrir sjúklinga og „miða“ það við kostnað þann, sem hún teldi verið hafa á Vífilsstöðum, ritaði sjúkrahússtj. á Ísafirði ríkisstj. bréf, þar sem hún gerði grein fyrir, hvernig málið horfði við frá hennar sjónarmiði. Ríkisstj. hafði miðað við skýrslur ríkisgjaldanefndar frá 1926 um kostnað við legu sjúklinga á Vífilsstöðum. Samkv. þeim skýrslum hafði meðaltalskostnaður fyrir sjúklinga þar orðið 5,68 kr. á dag. Taldi stj., að kostnaðurinn á Ísafirði, kr. 6,73 með lyfjaumbúðum og lækniskostnaði, væri óhæfilega hár. En í grg. sjúkrahússtj. á Ísafirði er glögglega sýnt fram á, að mjög skortir á, að þetta sé rétt hjá hæstv. ríkisstj. Ríkið hefir lagt Vífilsstaðahælinu til, ekki aðeins hús með öllum útbúnaði, heldur og bústað fyrir lækni og fólk allt. Sjúkrahúsið á Ísafirði er hinsvegar nýbyggt; það kostaði yfir 300 þús. kr., og þótt dreginn sé frá 80 þús. kr. ríkissjóðsstyrkur, eru eftir 220 þús. kr., sumpart frá bæjarsjóði og sumpart áhvílandi skuldir. Sé tekið tillit til hæfilegs húsnæðiskostnaðar á Ísafirði, verður raunin sú, að kostnaður við dvöl sjúklinga þar hefir orðið talsvert lægri en á Vífilsstöðum, sem þó hafa margfalt betri aðstöðu, fleiri sjúklinga, ódýrari mjólk, rafmagn o. fl. o. fl.

En sagan er ekki öll sögð með þessu. Sjúkrahúsið á Ísafirði hefir aðeins eitt ár haft tekjuafgang; nam hann á reikningi um 3 þús. kr., þegar framlag bæjarins er talið til tekna, en allmikið af þessum tekjum er aðeins á pappírnum, því að alltaf verða nokkur vanhöld á innheimtu skulda. Það fer því fjarri, að sjúkrahúsið á Ísafirði hafi verið ofhaldið með þeim gjöldum, sem tekin hafa verið af sjúklingum.

Stj. gekk svo langt, að hún virti að engu ákvæði laganna um, að daggjaldið skyldi, ef samningar ekki næðust, ákveðið fyrirfram. Þegar daggjaldinu var breytt, tilkynnti hún sjúkrahússtj. það með bréfi, ekki fyrirfram, eins og lagagreinin gerir ráð fyrir, heldur eftir á, sem er skýlaust lagabrot. Sjúkrahússtj. ritaði nokkru síðar ríkisstj. og sendi uppkast að samningi um greiðslu fyrir berklasjúklinga. Þar býður hún, að daggjald fyrir berklasjúklinga skuli ákveðið kr. 5,50 á dag, og sjái sjúkrahúsið þeim þá fyrir lyfjum, umbúðum og allri læknishjálp. Sé þetta borið saman við kostnaðinn á Vífilsstöðum 1926, er þetta 18 aurum lægra en kostnaðurinn þar, þó að ekki sé tekinn til greina bústaður fyrir lækni og starfsfólk allt.

Þetta ætti að sýna, hvílíkt dæmalaust ranglæti það er, sem stj. hefir beitt við ákvörðun daggjaldanna. En afleiðingarnar af þessari ráðabreytni verða þær, að sjúkrahúsin neyðast til að gera annað tveggja: Að neita að taka við sjúklingum, eða krefja framfærslusveit þeirra, ef þeir geta ekki staðið í skilum, um viðbótargreiðslu við daggjald ríkissjóðs. En þetta er skýlaust brot á anda berklavarnalaganna, því að eftir þeim eiga sjúklingar heimtingu á að fá alla sjúkravist ókeypis.

Um þá ráðstöfun ríkisstj. að neita að greiða fyrir ljóslækningar á öðrum stöðum en þessum þremur, Kristnesi, Vífilsstöðum og Reykjavík, er nokkuð svipað að segja. Með því er í rauninni fluttur berklavarnakostnaðurinn af hinum rétta aðilja, ríkissjóði, á framfærslusveit eða einstaka menn. En sá ólöglegi sparnaður fyrir ríkissjóðinn er keyptur dýru verði. Því setjum svo, að sjúklingur utan af landi sé neyddur til að fara til Reykjavíkur með ærnum kostnaði og bíða þar tímunum saman eftir því að komast að, auk tímans, sem hann gengur í ljós. Það mundi kosta sjúklinginn margfalt fé og tíma að leita til þessara staða á móts við það að nota ljóslækningatæki í næsta sjúkrahúsi.

Ég veit, að hv. landlæknir hefir látið það álit í ljós við hæstv. stj., að nokkuð

orkaði tvímælis um það, hvort ljóslækningaáhöld, sem til eru í sjúkrahúsum úti um land og sem læknar þar fara með, væru svo góð og þekking læknanna það mikil, að sjúklingum yrði veruleg bót að. Ég hefi talað um þetta við allmarga lækna og verð að segja, að það er álit þeirra svo að segja undantekningarlaust, að það, sem landlæknir heldur fram í bréfi sínu, hafi við sáralítil rök að styðjast. A. m. k. er víst, að það er þá alveg ný speki, sem þarna rennur upp fyrir hæstv. stj. Hún er og hefir verið því fylgjandi, að sjúkrahús væru styrkt að 1/3 til þess að kaupa sér ljóslækningatæki. Það væri vitanlega hinn mesti bjánaskapur að styrkja og hvetja sjúkrahúsin til að kaupa þessi tæki, ef ekki væri þorandi að láta læknana fara með þau. Þá væri það blátt áfram óverjandi fyrir ríkisstj. að leggja með því, að sjúkrahúsin væru styrkt til þess að afla sér þessara áhalda. En einmitt með þessari aðstöðu sinni viðurkennir ríkisstj., að þessum stofnunum sé trúandi til að fara með slík áhöld til gagns fyrir fólkið. Enda hefi ég þar fyrir mér álit hins fróðasta manns á landi hér í þessum efnum. Hann segist gera ráð fyrir því, að ljóslækningatækin séu í þeim höndum, að þau komi að notum víðasthvar á landinu. Sé það hinsvegar svo, að á 1–2 stöðum á landinu séu menn með ljóslækningatæki, sem ekki sé trúandi til að fara með þau, þá eru það undantekningar frá reglunni, og þá á að svipta þessa menn rétti til þess að fást við ljóslækningar. En að taka alla aðra staði en þessa þrjá og telja þá óhæfa til að veita berklasjúklingum hjálp, nær auðvitað engri átt.

Um fleiri atriði í bréfi landlæknis mætti náttúrlega segja margt, en þar sem því er allítarlega svarað í grg. þeirri, er ég læt fylgja þessari þáltill., mun ég ekki fara út í það. En meðan ekki er meira af sjúkrahúsum á landi hér en nú er, þá væri það næsta undarleg ráðabreytni, ef það ætti að gera að skilyrði fyrir greiðslu styrks, að uppfylltar séu þær kröfur um loftrými pr. sjúkling, sem um getur í bréfi landlæknis. Það væri sama og að segja við fjölda sjúklinga, sem liggja í aumustu hreysum við þrengsli, loftleysi og illa aðbúð: Þið fáið ekki að koma hér inn vegna þrengsla og loftleysis, — og láta þá deyja drottni sínum heima hjá sér, eins og bent er til í bréfi Vilm. læknis Jónssonar.

Loks er ekki úr vegi að minna hæstv. stj. á það, að í þessu sambandi er alls ekki um það að ræða, sem helzt virðist vaka fyrir henni, að verið sé að styrkja sjúkrahúsin með berklavarnakostnaðinum. Það nær ekki nokkurri átt. Styrkurinn gengur að vísu til þess að greiða kostnað fyrir sjúklingana, en það er ekki fyrst og fremst sjálfra þeirra vegna, heldur vegna hinna, sem eru svo lánsamir að vera lausir við þennan sjúkdóm, alveg eins og nafn laganna ber með sér: varnir gegn berklaveiki. Það væri afskaplegt að hugsa sér, að menn, sem væru haldnir sóttinni, veikir og vanmegnugir að bjarga sér, ættu að taka á sig að bera kostnaðinn af sóttvarnarráðstöfunum. En viðleitni hæstv. stj. snýst í þá átt að flytja kostnaðinn af ríkissjóði á sjúklingana, og ef þá þrýtur getuna, þá yfir á framfærsluhéruðin.

Ég vil bæta því við, að ef ekki fæst álit hv. d. um skilning á þessari grein laganna, en skilningurinn er sá, eins og segir í tillgr. sjálfri, að ef ekki nást samningar, þá skuli stj. heimilt að ákveða fyrirfram hámarksdaggjald fyrir sjúklinga, er miðast skuli við kostnaðinn á Vífilsstöðum. En það liggur í augum uppi, að við þann samanburð eða viðmiðun verður að taka allt til greina, kostnað við húsnæði, sem standa þarf straum af, og það, sem þarf til daglegs rekstrar, verð á mjólk og mat, verð á rafmagni, sem notað er t. d. til ljóslækninga, og annan kostnað, sem er mjög mismunandi, eftir því hvar er á landinu. M. ö. o.: Daggjaldið hlýtur að verða nokkuð mismunandi eftir staðháttum, aðstöðu og dýrtíð, en getur ekki orðið hið sama og á Vífilsstöðum, ef nokkurrar sanngirni er gætt.

Fáist hv. Nd. ekki til að kveða á um skilning á þessu, verður það dómstólanna að skera úr því. Að ríkisstj. ákveði daggjöldin eftir á, að liðnu árinu, brýtur bæði í bága við lög, og að því er ég held við skilning hæstv. stj. sjálfrar.

Sjúkrahús Ísafjarðar verður áreiðanlega ekki eina sjúkrahúsið, sem leitar dómsúrskurðar, ef Alþingi ekki segir til um skilning laganna. Ég veit ekki, hvort hæstv. stj. fellur það betur að láta sækja sig að lögum og þola dóm heldur en að láta Alþingi taka af allan vafa um skilning greinarinnar.