17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

388. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Guðmundsson:

Það er náttúrlega rétt, sem hæstv. dómsmrh. segir, að ekki sé til neins að hafa langar umr. eftir að hann hefir lýst yfir því, að það sé sama, hvað þingið segi, því að úr málinu verði ekki skorið nema með dómi. Það mun þó vera heimilt, jafnvel fyrir Nd. eina, að láta í ljós álit sitt, því að lögin eru þó ekki annað en smíðisgripur þingsins. Hæstv. stj. ætti ekki að vera svo stór upp á sig að firtast, þó að leitað sé til deildarinnar um skilning á þeim. Því að hæstv. dómsmrh. má vita, að ekki þarf að líða á löngu, áður en þessum lögum verður breytt. (Dómsmrh.: Það er allt annað mál). Mér finnst hann ekki þurfa að halda svona fast við skilning sinn, ef þingið álítur hann ekki réttan.

málsgr., sem deilt er um í lögunum nr. 42 frá 31. maí 1927, um breyt. á lögum um berklavarnir, er þessi: „Stjórnarráðið getur ákveðið hámark daggjalds sjúklinga þeirra, er að framan greinir, ef ástæða þykir til“.

Berklavarnalögin segja ennfremur, að ætlazt sé til, að samið sé fyrirfram bæði um daggjöld og styrk til ljóslækninga í ljóslækningastofum fyrir hálft eða heilt ár í senn. Mér skilst, að hæstv. stjórn hafi ekki gert þetta. (Dómsmrh.: Hún hefir gert annað, sem lögin segja). Vera má það, en hún á að gera allt, sem lögin segja. Það er ekki nóg, að hún brjóti þetta, heldur hefir hún einnig skilið úr nokkrar ljóslækningastofur og segist aðeins borga þær lækningar í röntgenstofunni í Reykjavík, á Vífilsstöðum og í Kristnesi, alveg án þess að hafa minnstu stoð í lögum. Hún getur alveg eins komið og sagt: „Við viljum ekki, að sjúklingar séu nema á þessum þremur stöðum“. Ef aðrar ljóslækningastofur teljast hæfar, þá hefir stj. enga heimild til að útiloka þær frá styrk. Það er hart, þegar búið er að örva þessar stofnanir til að fá sér tækin, að ekki eigi að nota þau.

Svo er þessi heimild, sem stj. er gefin, með hámark daggjalda. Það er engin sanngirni að ákveða þau hin sömu um allt land, hvernig sem á stendur, vegna þess, hvað dýrtíðin er mismunandi, t. d. á Ísafirði og Akureyri, og allur rekstrarkostnaður. Þó að það sé kannske ekki lagabrot, eins og greinin er orðuð, er það brot á þeirri skyldu að framkvæma lögin með sanngirni. Já, það er t. d. nokkuð annað að fá hita ókeypis úr laugum eða að nota kol eða rafmagn. Hæstv. dómsmrh. lætur reyndar í veðri vaka, að hann vilji ekki reikna með kostnaðinum í Kristnesi, heldur á Vífilsstöðum. En hvers virði er það að hafa slíka jörð og bú sem Vífilsstaðahælið og þurfa ekkert að borga fyrir?

Hæstv. dómsmrh. var að tala um, að hægt sé að jafna halla með rekstrarstyrk.

Ég skal ekki neita því. En hitt þekki ég frá því ég var sýslumaður og hafði með eitt þessara sjúkrahúsa að gera, að það var stór baggi á sýslunni þrátt fyrir styrkinn. Hann hefir hrokkið skammt.

Að öllu athuguðu á ég bágt með að skilja, að það geti verið meiningin hjá hæstv. stj. að vilja endilega fá dóm um þetta atriði, því að ég get ekki séð, að hún hafi nokkra heimild til að ákveða eftir á, hvað greitt skuli, og ekki heldur til að skilja ákveðnar ljóslækningastofur út úr.

Hæstv. dómsmrh. má engan veginn skilja þetta svo, að farið sé fram á, að ríkissjóður greiði kostnað, sem ekki eigi að greiðast eftir lögum. En lögunum verða menn að fylgja. Það er ekki til neins að karpa um þetta. En ég vildi láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. dómsmrh. skuli halda svo þrákelknislega við þetta, þegar búið er að sýna, að það getur ekki með nokkru móti samrýmzt við lög.

Hann talaði um, að fyrrv. stj. hefði átt í deilu við lækna. Mér er ekki kunnugt um, að sú deila væri svo alvarleg, að ástæða sé til að blanda henni inn í umr. nú.