17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3526)

388. mál, varnir gegn berklaveiki

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég varð hissa, að hv. 1. þm. Skagf. skyldi tala svona um ósanngirni stj., því ég veit, að hann hefir einu sinni komizt að sömu niðurstöðu í málinu gegn þessum „praktiserandi“ læknum meðan hann átti sæti í landsstj. Eftir þeim leifum, sem ég erfði eftir fyrrv. stj. í því máli, sýnist mér hún hafa litið þannig á. (MG: Kemur ekki þessu máli við). Hún leit svo á, að embættislausir læknar, sem sinntu berklaveikum, mættu einungis hafa sama taxta og héraðslæknar. Sá taxti var gamall og miklu lægri en almennt var fylgt. Ég held, að ýmsir læknar þykist eiga kröfu á landið frá þessum tíma. Það var reynt að semja við þá, en málið er ekki klárt.

Hv. flm. segir, sem rétt er, að nokkur mótsögn sé í berklavarnalögunum frá því í fyrra. En úr því máli verður ekki skorið nema með því, að reynt sé að skilja, hvað er aðalatriði málsins. Þar er tekið fram tvennt. Fyrst er gert ráð fyrir samningum milli sjúkrahúsanna og landsstj., en í öðru lagi er sagt, að stj. eigi að geta ákveðið hámark daggjalda. Nú má segja, að sjúkrahús Ísfirðinga hafi boðið samninga, sem landsstj. hefir ekki viljað ganga að. Þá lá það næst, að hún notaði sér heimildina til að ákveða hámark og miða við kostnað á Vífilsstöðum, alveg eins og hv. 1. þm. Skagf. miðaði við taxta héraðslækna.

Það má vel segja, að lagagreinin, sem breytt var til þess að minnka kostnaðinn, sé í ósamræmi við fyrri venjur og kröfur læknanna, sem hafa spítalana. En eigi að vera vit í greininni, hlýtur það að vera mergurinn málsins, að landsstj. hafi úrskurðarvald um daggjöldin, ef ekki næst samkomulag.

Kannske hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki veitt því eftirtekt, að ljóslækningakostnaður er innifalinn í daglegum kostnaði á Vífilsstöðum og í Kristnesi og er talsverður hluti hans, eins og gefur að skilja, og hallar þá samanburðinum því meir á hina spítalana. Reyndar miða ég minna við Kristnes vegna aðstöðunnar þar, en það getur ekki verið ósanngjarnt að miða við Vífilsstaði.