13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það hafa komið fyrirspurnir til mín frá hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Dal. um það, hvort stj. hafi átt kost á að fá lán með 6% vöxtum. (ÓTh: Ég spurði, hvaða lánstilboð hefðu borizt). Ég verð að svara því, og miða þá við þann tíma síðan ég tók við embættinu. Ekkert tilboð hefir komið. Það hafa komið talsvert margir menn til að tala um, hvort þeir ættu að undirbúa lántöku, og ræða fleira í því sambandi. Þeir hafa fengið þessi svör: „Komið þið með ákveðin lánstilboð, þá skulum við líta á þau“. Enginn kemur með tilboðið. Þeirra umleitanir hverfa úr sögunni, undir eins og þeir eiga að fara að koma með þau. Einnig hefir stj. gert nokkuð til að fá lán með þeim kostum, sem virtust vera hugsanlegir, en árangur hefir ekki orðið.

Þetta ætti líka að nægja við fyrirspurn hv. þm. Dal. Hann spyr, hvort stj. hafi átt kost á að fá 6% lán og með hvaða kjörum hefði verið hægt að fá lán. Stj. hefir hvorki átt kost á 6% láni né öðru hagfelldara síðan ég kom í hana.

Þá er enska lánið. Það virðist vera gerð tilraun til þess nú að gera það eitt hið glæsilegasta bjargráð, bæði af hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Reykv. Má vel vera, að það sé glæsilegt í þeirra augum. En ríkið rekur sig alltaf á það, þegar það leitar tilboða um lán í útlöndum. Og stærsta atriðið í þessu máli er það, að útlendir fjármálamenn og bankamenn líta svo á, að tolltekjur landsins séu veðsettar fyrir láninu. Það gagnar ekki, þó að hv. 1. þm. Skagf. og aðrir hv. þm. standi upp hér og mótmæli. Það breytir engu. Enda er samningurinn um enska lánið nokkuð greinilegur í þessu efni. Það þýðir ekki að mótmæla þeim mönnum, sem við ætlum að fá lán hjá, þegar þeir segja: Þetta er í samningnum, ríkissjóðstekjur eru þar veðsettar. Þið getið ekki fengið lán með eins góðum kjörum, nema þið getið losað þessi veðbönd.

Einhverjir hv. þdm. minntust á tryggingar þær, sem ríkisstj. hefði fyrir enska láninu. Mér skildist þeir halda að ég hefði kannske sýnt einhverja vanrækslu í að halda þeim fullgildum. Ég ætla nú ekki að svo stöddu að fara út í þau mál eins og kannske er ástæða til. Ég ætla að bíða og vita, hvað fram kemur í þessu máli. En það getur vel verið, að þá komi í dagsljósið sitthvað, sem ekki varpi ljóma á Íslandsbanka.

Ég sé raunar enga ástæðu til að fara að svara hv. 1. þm. Reykv. Það er ekki annað en blekking, að hér sé um nýja heimild að ræða. Þessu sama hefir einnig verið haldið, fram í blöðum hér í bænum. En allir vita, og hv. 1. þm. Reykv. líka, að hér er ekkert nema sett í sérstakt form atriði, sem áður er búið að lögfesta.

Hv. þm. minntist á áhrif Íslandsbankamálsins á lánstraust landsins erlendis. Mér fannst hann hlakka til, að þetta gæti orðið til að spilla lánstrausti ríkisins. Mér fannst tilhlökkunin skína út úr honum. Verði honum að góðu.