17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3544)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Sveinn Ólafsson:

Mér virðist nokkurt vandhæfi á því að samþykkja þessa till. eins og hún liggur fyrir nú. Að vísu finnst mér það óviðunandi, ef drykkjuskapur yrði ábærilegur á alþingishátíðinni, og drykkjulæti við það tækifæri myndu hin verstu veizluspjöll. En því miður held ég, að ekki yrði fyrir óreglu girt, þótt till. þessi næði samþykki. Ég held, að ef áfengisbúðunum yrði lokað meðan hátíðin stendur yfir, þá myndi þeim greiði gerður, sem græða vildu á launsölu vínsins, og ekki myndi þeim skotaskuld verða úr því að afla vínanna áður lokað væri sölustöðum. Að sjálfsögðu vil ég allt gera, sem í mínu valdi stendur til að afstýra því, að upp komi áberandi óregla eða óhófleg vínnautn á hátíðinni, og get ég því ekki greitt atkv. á móti till. eða efni hennar.

Hinsvegar get ég ekki fellt mig við að greiða atkv. með henni í þessari mynd og vil ekki eiga á hættu þau mistök af samþykkt hennar, sem ég áður nefndi, né heldur vil ég, að svo verði litið á, að ég telji efni till. litlu skipta. Mér finnst því langlíklegasta meðferðin á till. þessari að vísa henni til allshn. (SE: Hvenær á að skila áliti?). Hafi n. eigi tíma til þess að skila því að þessu sinni, þá myndi henni þó fært að skila því á næsta þingi!

Það getur verið, að ýmsum þyki þetta ekki allskostar tilhlýðileg meðferð á till., en ég sé ekki annað ráð betra til að koma málinu frá á skaplegan hátt en að afgreiða það þannig, svo að ekki hljótist slys af. Ég býst við, að það verði enginn vinningur að samþ. till. eins og hún liggur fyrir, en hinsvegar finnst mér það ekkert hneyksli, þótt till. lægi eftir óafgr. hjá allshn. Þar er hv. 1. þm. Skagf., sem ég trúi ákaflega vel til að geyma hana vel, ef afgreiðslu bæri undan í svip. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta að sinni, enda er nú komið langt af miðnætti og helgin byrjuð.