17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Magnús Jónsson:

* Það hefir verið tekið fram mikið af því, sem ég hefði viljað segja. Ég býst við, að allir séu sammála um það, að mikil veizluspjöll yrðu af mikilli víndrykkju á hátíðinni. Það hefir verið gert svo ráð fyrir, að koma mætti í veg fyrir þau spjöll, en það er alveg áreiðanlegt, að ekki verður hægt að koma í veg fyrir drykkjuskapinn með þeirri till., sem hér liggur fyrir, heldur aðeins með því að hafa ákaflega öfluga gæzlu og sjá um, að menn viti fyrirfram, að þarna verður öflug gæzla. Eins verður að koma fljótt burt þeim mönnum, sem ætla að vekja þar hneyksli á almannafæri. En till. gerir ekkert gagn, enda er búið að benda á, hvað vitagagnslaus hún er.

Till. er í tveimur liðum. Annar er um að loka vínverzluninni, en hinn er um að banna vín í opinberum veizlum. Það er búið að benda á, að lokun vínbúða er algerlega tilgangslaus. Það er líka óviðeigandi móðgun við gestina, þegar við höfum hér opinbera vínverzlun, að fara að loka henni aðeins meðan þeir eru hér. Það er eins og við séum að gefa með því í skyn, að gestirnir séu svo mikil drykkjusvín og ræflar, að hætt sé við, að þeir fari sér að voða meðan þeir eru hér, en aftur á móti sé óhætt að lofa landsmönnum að birgja sig upp eins og þeir vilja. Það hlýtur því að liggja öllum mönnum í augum uppi, að þessi till., ef hún yrði samþ., yrði ekki til annars en að verzlað yrði í hverri krá með vin á laun.

Þá vil ég benda á eitt atriði. Ég veit ekki, hvort þetta er okkur heimilt eftir samningi okkar við Spánverja, því að þar er tilskilið, að allar aðgerðir slíkar sem þessar verði tilkynntar þeim. Ég veit ekki betur en að Spánarsamningurinn taki það skýlaust fram, að ekki megi gera þær ráðstafanir, sem geri þessa undanþágu frá bannlögunum að engu. Ég efast því um, að rétt sé að framfylgja þessari till., jafnvel þó að ekki væri hægt að klekkja á okkur fyrir það. Og fyrir svona lítilfjörlegar ástæður finnst mér, að við eigum ekki að ganga á svig við samninginn.

Í till. er það tekið fram, að ekki megi hafa vín um hönd í opinberum veizlum. Mun þar sérstaklega átt við veizlur þær, sem haldnar verða á Þingvöllum. Og ég álít, að þar sem gestgjafar þar verða forsetar Alþingis, þá sé rétt, að þeir ákveði það. Ég mun algerlega fylgja þeirri stefnu, sem þeir taka, hvort sem þeir taka heldur þá stefnu að veita vín eða að veita það ekki. Ég lít svo á, að þeim sé fyllilega trúandi til þess.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en af þessum ástæðum, sem ég hefi nú tekið fram, get ég ekki fylgt þessari till., enda þótt ég viti, að drykkjuskapur mundi mjög spilla veizlusiðum öllum á hátíðinni og standa því í vegi, að hún fari vel fram.