17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (3562)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Eins og kunnugt er, hefir stj. í þessum efnum byggt jafnan á till. Búnaðarfélags Íslands. Svo er einnig í þetta skipti. Þessi breyt. er gerð eftir till. Búnaðarfélags Íslands og byggt aðallega á till. Sigurðar búnaðarmálastjóra Sigurðssonar og Pálma Einarssonar jarðyrkjuráðunauts. Þegar þessi till. kom fram, sneri ég mér því til búnaðarmálastjóra og bað hann að rita mér greinargerð um málið. Greinargerð hans er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: .

„Búnaðarþing 1927 hafði til meðferðar breytingartillögur við jarðræktarlög frá 1923. Laganefnd hafði málið til meðferðar. Lagði nefndin til, að samþykkt væri svofelld ályktun:

„Búnaðarþing ályktar að skora á stj. Búnaðarfélags Íslands í sambandi við hlutaðeigandi starfsmenn sína, að endurskoða núgildandi mat í jarðabótum til dagsverka“.

Eftir að breytingar eru gerðar á jarðræktarlögum á Alþingi 1928, er samkv. ályktun Búnaðarþings viðkomandi starfsmönnum félagsins, þeim Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra og Pálma Einarssyni jarðyrkjuráðunaut, falið að gera tillögur til breytinga, hvernig lagt skuli til dagsverka jarðabætur.

Leggja þeir fram till. sínar á stjórnarfundi í Búnaðarfélagi Íslands, og eru till. þeirra þessar:

„Óbylt nýrækt, að í stað 100 m2 dagsv. komi 200 m2.

Alsteypt áburðarhús, að í stað 0.20 m3 dagsv. komi 0.25 m3.

Steypt áburðarhús með járnþaki, að í stað 0.25 m3 dagsv. komi 0.30 m3.

Allar jarðabætur, sem eru fullgerðar og vel af hendi leystar, má taka á skýrslu, þá mæling fer fram“.

Um þessar breyt. varð öll stj. sammála, að undanskilinni niðurlagsgrein. Magnús Þorláksson fékk breytt, að í stað 200 m2 komi 300 m2.

Til grundvallar þessum till. liggur: Við ræktun á óbyltu landi kemur aðeins til greina notkun áburðar, eftir að landið hefir verið girt, og svo völtun þess.

Í allflestum tilfellum er við slíka ræktun notaður tilbúinn áburður. Verðlækkun hans hin síðustu ár, sem einmitt er fram komin fyrir tilstilli og að nokkru vegna sérstakra fjárframlaga úr ríkissjóði, gera þessa breyt. fullkomlega réttmæta.

Áburðarhús alsteypt og með járnþaki. Þar byggjast till. til breyt. vitanlega á sömu ástæðum. Efniviður til þessara bygginga hefir frá því á árunum 1923–1924 lækkað í verði, fullkomlega því sem svarar til þessarar stækkunar dagsverksins.

Tillagan, allar jarðabætur, sem eru fullgerðar og vel af hendi leystar, má taka á skýrslu, þegar mæling fer fram, byggist á þeim forsendum, að þá er jarðabótamaðurinn búinn að leggja fram allan þann kostnað, sem af jarðabókinni leiðir, og er þá fullkomlega hægt fyrir kunnáttumenn að dæma um varanleik og gildi jarðabótarinnar. Aftur á móti höfum vér ekki séð oss fært að stækka dagsverk í túnrækt, byltri nýrækt og görðum.

Að vísu má segja, að með nýjum jarðyrkjutækjum og lækkun á verði tilbúins áburðar, þá geti þeir, er kunna vel að þessum hlutum, unnið verkin mikið ódýrar en áður. Þess ber að gæta, að jarðyrkja vor yfirleitt í sveitum landsins er á byrjunar- og tilraunastigi; sem dæmi þess má nefna, að síðastl. ár hafa komið yfir 1000 nýir jarðabótamenn til sögunnar, og aðeins um 30 manns hafa náð hámarksstyrk á nýyrkju. Jarðvinnslan verður því aðeins ódýr, að hún sé framkvæmd í töluvert stórum stíl og með gagnkvæmri þekkingu. Þeir, sem vinna minna en svo, að þeir fái hámarksstyrk, geta vart aflað sér þeirra tækja, að þeir fái framkvæmt jarðabæturnar á ódýrasta hátt.

Þær breyt., sem stj. Búnaðarfélags Íslands gerði til að stækka dagsverk í matjurtagörðum, túnasléttun og byltri nýrækt, eru til orðnar fyrir ákveðinn atbeina Magnúsar Þorlákssonar, fulltrúa sjálfstæðismanna í stj. Búnaðarfélags Íslands, er lagði alveg óvanalega áherzlu á, að þessar breyt. yrðu einnig gerðar, og tilfærði eigin reynslu sem mælikvarða, en eins og bent er á hér að framan, eru það tiltölulega fáir af jarðabótamönnum landsins, er geta haft þá afstöðu til framkvæmdanna, að kostnaðarverð þeirra standi í réttu hlutfalli við hinn breytta mælikvarða, sem nú skal lagður á þessar jarðabætur samkv. till. M. Þorlákssonar. Virðingarfyllst.

(Sign) S. Sigurðsson.

(Sign.) Pálmi Einarsson.

Til forsætisráðherra“.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða út af þessu bréfi. Stj. hefir jafnan talið sér skylt að taka tillit til þessara sérfræðinga, einnig hv. 1. þm. Skagf., meðan hann var ráðh. Það hefi ég einnig gert, og ég taldi mig þurfa að nokkru a. m. k. að taka tillit til fulltrúa stjórnarandstæðinga (M. Þorl.), þar sem hann jafnframt hefir mjög gott vit á þessum málum. En vilji Alþingi mæla svo fyrir, að annað skuli gert í þessu efni, þá skal ég með ánægju játa þær breyt. fara fram.1)

1) Vantar niðurlag ræðunnar frá hendi þingskrifara. Tr. Þ.