17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3564)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Bjarni Ásgeirsson:

Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með langri ræðu, enda mun flestum finnast, að teygzt hafi nóg úr þessum fundi, þar sem komið er fast að óttu.

En ég vildi spyrja hv. flm., 1. þm. Skagf., hvað hann meinar með þessu dagsverki, sem hann er að tala um. Ég hefi skilið ákvæðið um styrk samkv. jarðræktarlögunum þannig, að miða ætti við raunverulegt dagsverk, eða hvað meðalmaður vinnur á dag. Spurningin er þá sú, hvort Búnaðarfélagi Íslands hafi tekizt að komast nálægt hinu rétta. Þeir, sem ætla að meta dagsverk, verða að miða við það, hvað meðalmaður vinnur á dag. Það er alveg eins um þá menn, sem meta eiga dagsverkið, eins og þá, sem virða til verðlagsskrár. Frá verðlagsskránni verður ekki komizt eftir að hún hefir einu sinni öðlazt gildi. Hafi verið gert rangt, þá á að beina athyglinni að því, þegar metið var í vor, hvað var raunverulegt dagsverk, þá, og hvort það var rétt metið þá eða ekki.

Menn furða sig á því, að dagsverkið skuli hafa hækkað eins mikið og það gerði síðastl. vor. En eftir athugunum, sem ég hefi gert með aðstoð kunnugra manna, þá hefir jarðabótakostnaður yfir höfuð lækkað til muna síðastl. ár. Ég skal nefna nokkra liði ræktunarkostnaðarins máli mínu til sönnunar.

Miðað við grasfræ hefði dagsverk átt að stækka um 33%, miðað við jarðvinnslu 40%, og miðað við kaup á erlendum áburði nemur það 100%. (MG: Frá hvaða tíma er þetta reiknað?). Þetta er miðað við þær verðbreyt., sem hafa orðið á tímabilinu síðan hv. 1. þm. Skagf. gaf út sína reglugerð.

Ég verð að halda fram, að þessir reikningar séu réttir, og á meðan sú skýrsla er ekki rengd, get ég ekki skilið, hvaða rétt Búnaðarfélag Íslands hefir til að meta dagsverkið öðruvísi en gert hefir verið. Ef það eitt á að ráða, að bændur fái sem mestan styrk til jarðabótanna, þá er gatan að takmarkinu greið, sú, að færa dagsverkið sem lengst niður, helzt ofan í einhverja hverfandi smæð, þá verður að miða við eitthvað annað. En á meðan ég, sem er í stj. Búnaðarfélags Íslands, fæ ekki skýra fyrirskipun um það frá löggjafarvaldinu, sem leggur til féð, mun ég haga þessu mati eins og verið hefir. Hitt er annað mál, ef Alþingi fellst á að breyta þessu og færa í sama horf og ætlazt er til í reglugerð hv. 1. þm. Skagf. þá skal ég með gleði framkvæma slíkar fyrirskipanir. Það hefir hvergi verið gengið á rétt bændanna í þessu efni, og heldur ekki seilzt dýpra í vasa þeirra en lög standa til. En sem sagt, ef hér á ekki að ráða það eitt, sem rétt er, um mat dagsverksins, heldur það, hvað gefi okkur bændunum mestan ríkissjóðsstyrk; þá verður svo að vera.