13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. hefir lesið hér upp þýðingar, sem hann hefir sjálfur látið gera, en svo hlutdrægar sem þær eru, stendur þó ekki í þeim, að tolltekjurnar séu veðsettar, heldur að ekki megi veðsetja þær öðrum. Og það er töluverður munur á þessu tvennu. Því til sönnunar, að tolltekjurnar séu ekki veðsettar, get ég annars bent á það, að við höfum breytt tollalöggjöfinni fram og aftur án þess að leita samþykkis hinna ensku lánveitenda. Hvað halda menn, að bankastjóri eins banka mundi segja, ef skuldunautur bankans seldi eða eyðilegði að meira eða minna leyti það veð, sem hann hefir sett fyrir skuld sinni? Auk þess þarf sérstakar ráðstafanir til þess að veðsetja tolltekjur eins lands, eins og hæstv. forsrh. veit ósköp vel. Ég saka því hæstv. ráðh. um að fara hér vísvitandi með rangt mál. Og hann hefir leikið þann leik áður, þessi virðulegi ráðh., t. d. um daginn, þegar hann sagðist vera búinn að skipa n. í raforkumálinu, en hafði þó enga n. skipað.