17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Bjarni Ásgeirsson:

Mér þótti það einkennilegt hjá hv. 1. þm. Skagf., þegar hann sagði, að ómögulegt væri að segja um, hvað dagsverkið ætti að vera stórt, en sagði þó jafnframt, að það væri allt of stórt eins og það væri nú. Mér finnst hann ætti ekki, meðan hann hefir ekki gleggri hugmynd um, hvað er dagsverk, að staðhæfa neitt um það, hvort það er of stórt eða lítið nú. Vitanlega er stærð raunverulega dagsverksins dálítið mismunandi víðsvegar á landinu, alveg eins og ærverð og hestverð er dálítið mismunandi, og er þá reynt að finna eitthvert meðalverð, þegar verðlagsskráin er metin.

Hv. þm. hafa talað um, að dagsverkið væri nú miðað við þá jörð, sem bezt væri og ódýrast að rækta. Það var rétt, sem hv. þm. V.-Húnv. minntist á, að það er til svo heppileg jörð til ræktunar, að styrkurinn nægi upp í kostnaðinn við að vinna það, í staðinn fyrir að hann á samkv. lögum að nema ¼ kostnaðar. Það er því alls ekki miðað við beztu jörðina, heldur reynt að finna meðalveg. Það fæst eins og nú er um 200 kr. styrkur fyrir ha. Ef gengið er út frá, að 200 kr. kosti að rækta ha. af bezta landinu, sem mun óhætt, þá má muna allmiklu á landinu, til þess að það kosti yfir 800 kr. á ha. að rækta það; en það er fyllilega staðið við lögin, þó vinnslan kosti 800 kr. að meðaltali á ha.

Hvað kaupið snertir, þá er ekki hægt að neita því, að sumstaðar bar nokkuð á hækkun kostnaðar við jarðvinnslu síðastl. ár. En kaupgjaldið hefir yfirleitt lækkað svo mikið áður, frá því gamla reglugerðin var samin, að það forsvarar, þó ekki væri tekið tillit til þessarar litlu kauphækkunar, og miklu meira. Það mun vera um 43% ódýrari jarðvinnslan nú en 1924, ef miðað er við hina bættu aðstöðu að mörgu leyti.

Ég get ekki neitað, að ég hefi að nokkru leyti skoðað Magnús Þorláksson sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Búnaðarfélagsstj., þar sem hann var valinn af þm. þess flokks.

Það hefir verið sagt, að ég væri að tala hér á móti þessu máli, en ég tók það fram áður, að ef það er vilji þingsins, að dagsverkin verði sem minnst, til þess að verkið geti talizt sem mest, þá ætla ég ekki að vera á móti því, heldur taka því þakksamlega. En ég hefi sagt, hvað lá til grundvallar fyrir atkv. mínu um þetta mál. Ég áleit skyldu mína að fara eftir því, sem væri réttast í þessu máli um mat á dagsverkum. Hvað það snertir, að ég sé svo mikill jábróðir hæstv. forsrh., að ég geti ekki greitt atkv. öðruvísi en hann, þá skal ég nota tækifærið til að lýsa ánægju minni yfir því, að ég get mjög oft fylgt hæstv. forsrh. að málum. Aftur á móti vona ég, að það hendi mig sem sjaldnast að gerast jábróðir hv. 1. þm. Skagf.