22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Ég tók ekki eftir því, að hv. flm. legði til, að málið fengi athugun í nefnd. Ég vil því leggja til, að málinu verði vísað til n. og þessari umr. frestað, ef ákveðin er aðeins ein umr.

Ég saknaði eins atriðis úr ræðu hv. aðalflm., nefnilega, hver yrði kostnaðurinn af þingflutningnum. (SvÓ: Af atkvæðagreiðslunni?). Nei, að flutningnum, því að það liggur í hlutarins eðli, að afla verður ítarlegra gagna og upplýsinga um það, hvað kostar að flytja Alþingi til Þingvalla. Þetta er vitanlega fyrsta skylda hv. flm., að koma með áætlun um kostnaðarhliðina og leggja hana fram, en það hafa þeir algerlega vanrækt enn sem komið er, og virðist því ráðlegt að láta n. sjá fyrir því. Raunar má það vel vera, að hv. aðalflm. hafi ekki sagt allt, sem hann vissi um kostnaðarhlið málsins, og væri þá gott, ef hann skýrði frá því þegar í stað. T. d. þykist ég vita, að bak við þessa till. liggi sú hugsun, að þingið verði háð á sumrum, og vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort þetta sé ekki hans meining. Í öðru lagi vil ég spyrja hann, hvað hann áætli, að þinghúsbygging á Þingvöllum muni kosta. Og hefir hv. þm. lagt það niður fyrir sér, hvílíkir erfiðleikar eru á því fyrir landsstj. að þurfa að sitja þingið á Þingvöllum og um leið að stjórna landinu? Eða meinar hv. þm., að stj. eigi að flytja aðsetur sitt til Þingvalla um þingtímann? Fyrr en ég fæ svör við þessum spurningum, sé ég enga ástæðu til þess að ræða málið. Menn verða að gera sér glögga grein fyrir þessu og öðrum grundvallaratriðum málsins, áður en þeir taka afstöðu til þess. Og það er með öllu óforsvaranlegt af Alþingi að varpa málinu órannsökuðu og illa undirbúnu undir úrskurð kjósenda í landinu.