22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3592)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Ég vil aðeins svara hv. 1. þm. Skagf. nokkrum orðum. Hann spurði, hvort ég og samflm. mínir hefðum gert nokkra áætlun um kostnað og umstang það, er af þingflutningi myndi leiða. Hv. þm. þarf ekki að spyrja þannig, því að hann veit, að þessi hlið málsins er þegar þrautrædd fyrir löngu, bæði á þinginu í fyrra og sérstaklega á þinginu 1926. Það hafa verið leidd mjög sennileg rök að því, að kostnaðurinn myndi aðallega vera þinghúsbygging á Þingvöllum, sem gizkað var á, að kostaði 500–600 þús. kr. með öllum nauðsynlegum útbúnaði. Um annan aukinn kostnað, svo sem af þinghaldi á Þingvöllum, milliferðum o. s. frv. dettur mér ekki í hug að ræða. (HV: En prentkostnaðurinn?)

Það eru engar líkur til þess, að kaup þm. hækki fyrir það eitt, að Alþingi flytjist á Þingvöll, og ekki heldur laun annara starfsmanna, sem við þingið eru. Það atriði, sem aftur og aftur hefir verið deilt um, hvort ætla megi ráðherrum setu á Öxarárþingi og jafnframt að sinna stjórnarstörfum hér í Reykjavík, ætti ekki að þurfa lengur að þræta um. Vegalengdirnar milli Þingvalla og Reykjavíkur eru ekki meiri en það, að auðvelt er að fara á milli mörgum sinnum á dag með samgöngutækjum nútímans. (MG: Já, að sumri til!). Ég skal þá koma að því, sem hv. 1. þm. Skagf. tók fram í þessu sambandi, að í umr. um þetta mál að undanförnu hefir ætíð verið gert ráð fyrir því, að Þingvallaþing yrði háð að sumri til. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það væri mikill fengur fyrir þm. og vegna starfa þingsins, að það flyttist frá skammdeginu svarta til miðsumarsmánaðanna, þegar bjartast er, flyttist úr myrkinu í ljósið.

Annars vil ég ekki lengja umr. með því að endurtaka það, sem komið hefir fram á undanförnum þingum. En til svars því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, vil ég aðeins nefna það, að ég skildi hann ekki, þegar hann var að tala um óheilindi flm. í þessu máli. Ég veit ekki, í hverju þau óheilindi eiga að vera falin og lít á þessi orð hans eins og vanhugsuð meiðyrði. Ég verð að segja það fyrir mig, að ég flyt þetta mál af einlægri sannfæringu fyrir því, að þingflutningurinn verði heillavænlegri ráðstöfun vegna framtíðarinnar en sú, sem gerð hefir verið um veru þingsins hér í Reykjavík. Hv. þm. má að öðru leyti skapa sér þær hugmyndir um óheilindi í þessu máli, sem hann vill; ég læt það ekki á mig fá, en tel þessa málfærslu hans ósæmilega.

Að því leyti, sem hann benti á sömu annmarka till. og hv. 1. þm. Skagf., þá er honum svarað með því, er ég svaraði þeim hv. þm.

Út af því, hvort till. ætti að fara til n. eða ekki, vil ég geta þess, að með því að till. er öllum þingheimi kunn, virðist engin þörf á nefnd, og við þá töf, sem á málinu yrði við að senda það til n., myndi ekkert vinnast annað en endurtekning þess, sem áður hefir verið um málið sagt. Ekki þarf þess af því að till. feli í sér kostnað fyrir ríkissjóð, því naumast verður talinn kostnaðarauki við að útbýta atkvæðaseðlum í sambandi við landskjörið að sumri. Um annan kostnað getur ekki verið að ræða, fyrr en þá seinna og síðar meir, ef einhver breyt. yrði um samkomustað Alþingis — að atkvgr. lokinni.