22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3595)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Héðinn Valdimarsson:

Það gladdi mig, að hv. þm. V.-Sk. tók þannig í málið, því að svo virtist, sem Framsóknarfl. stæði á bak við það, þar sem 9 af 13 framsóknarmönnum í deildinni flytja málið. Samt er það kannske svo, og væri gaman að heyra hjá hv. 1. flm., hvort tilætlunin sé sú, að Framsóknarfl. haldi þessu fram, ekki aðeins við atkvgr. nú, heldur vilji líka flytja þingið til Þingvalla. Það væri nauðsynlegt fyrir hina flokkana að vita þetta, ef það ætti að verða flokksmál Framsóknar.

Viðvíkjandi því, að hv. 1. þm. S.-M. sagðist ekki skilja, þegar ég talaði um óheilindi, þá veit ég, að þeir, sem standa að till., eru ósamþykkir um framkvæmd málsins. Þar á meðal veit ég, að einn þeirra sagðist vera algerlega á móti sumarþingum, sem hv. 1. flm. segist vera með, og þannig rekst þetta allt á sjálft sig, enda er þetta ekki gert til annars en að gera sig vinsæla í augum þeirra fáu vindbelgja, sem eru að hleypa upp bólu um þetta mál. Óheilindin eru ekki hjá hv. 1. þm. S.-M., sem er svo mosagróinn, að hann hyggur fært að flytja þingið, heldur hjá samflm. hans.

Í 33. gr. stjskr. stendur: „Samkomustaður Alþingis er jafnaðarlega í Reykjavík. Þegar sérstaklega er ástatt, getur konungur skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi“. — Samkvæmt því er hægt að hafa þinghald á Þingvöllum í sumar. En ef á að hafa þingið reglulega þar, verður auðvitað að breyta stjskr., svo að kosningar hlytu að fara fram um málið. Það væri því hreinlegra, ef þeir meina nokkurn skapaðan hlut með þessu, sem ég býst við að hv. 1. flm. geri, að bera beinlínis fram stjórnarskrárbreytingu og sjá svo, hversu mörg atkv. þeir fengju.