12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, fjárlög 1931

Forseti (JörB):

Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að ærið fámennt er í deildinni, svo að varla má heyja fund fyrir þær sakir. En hvorki er það; að nú sé orðið svo áliðið nætur, né að hv. þdm. hafi ekki vitað það, að fundur átti að standa nokkuð fram eftir í þetta sinn. Ég vil því reyna að hringja, til þess að vita, hvort þeir koma ekki í leitirnar. (Hringir).

Með því að sýnt er, að lítt muni úr rætast um fundarsókn hv. þdm., þá vil ég bera það undir deildina, hvort halda skuli fundi áfram eða ekki. Ég mun viðhafa nafnakall, til þess að það komi í ljós og verði bókað, hverjir eru viðstaddir og hverjir ekki. Vil ég biðja þá hv. 1. þm. S.M. og hv. 1. þm. Skagf. að gegna skrifarastörfum. — Klukkan er nú að vísu þrjú kortér yfir tíu, en því var lýst yfir í dag, að fundur mundi a. m. k. standa til kl. 12 á miðnætti. Ég veit ekki, hversu hv. þdm. líta á þessi vinnubrögð; þeim er það vitanlega í sjálfsvald sett, til hve mikils hróðurs þeir telja slíka ástundan um störf þingsins.