22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3600)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Pétur Ottesen:

Ég stend aðeins upp til þess að gera það að till. minni, að þessari till. sé vísað til fjhn. Ég tel það ennfremur sjálfsagt, eins og komið hefir fram í ræðum ýmissa hv. þm., að rannsakað verði áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, hvaða kostnað af þessu kunni að leiða. Þetta er stórt og veigamikið atriði þessa máls og því meiri ástæða er til að taka þetta til athugunar, sem skoðanir hv. flm. um þetta eru geysimikið sundurleitar. Hv. 1. þm. S.-M. áætlaði það 500–600 þús. kr., en hv. 2. þm. Árn. áleit, að þurfa myndi 2–3 millj. kr. (MT: Það hefi ég aldrei sagt). Þetta eru samherjar málsins, sem hafa svo ólíkar skoðanir. (SvÓ: Þetta er útúrsnúningur). Ég tek tölurnar rétt eins og þær voru nefndar. Út úr hverju hefi ég þá snúið? Hafa hv. flm. kannske sjálfir snúið tölurnar út úr því, sem rétt er?

Þegar tekið er tillit til þessa, finnst mér óforsvaranlegt að búa þetta mál undir þjóðaratkvæði án þess það sé athugað, og eftir venju er það fjhn., sem á að fá þetta mál til athugunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Það er sjálfsagður hlutur, ef hv. þm. er alvara, að þjóðaratkvgr. skuli fara fram, að vísa málinu til n., og er það fyrsta hlutverk þeirrar n. að fá húsameistara og aðra fagmenn til þess að gera áætlanir um kostnaðinn við það að flytja þingið á Þingvöll. Að bera málið undir þjóðaratkvæði án þess að þessi hlið málsins sé rækilega athuguð og skýrð fyrir þeim, sem um það eiga að greiða atkv., er óforsvaranleg.