22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3601)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Gunnar Sigurðsson:

* Hv. 2. þm. Árn. svaraði fyrirspurn minni um það, hvernig hann ætlaðist til, að þingmenn hefðu húsnæði á Þingvöllum. Hann hafði hugsað sér heimavist, sem þm. verði séð fyrir. Þetta er, út af fyrir sig, gott fyrir þm., en kostnaður verður mikill við það.

Það hefir komið í ljós hjá hv. 1. þm. S.-M. og hv. 2. þm. Árn., að þeim er þetta hreint hugsjónamál, og get ég líka skoðað það frá þeirri hlið. En fyrir mér er þetta alveg praktískt mál. Sú stefna sigraði áður milli Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna, og hún verður að sigra enn. Það eru miklu meiri ástæður fyrir því, að þingið skuli vera í Reykjavík en á Þingvöllum.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að það væri vantraust á þessari þjóð að segja, að hún gæti ekki greitt atkv. um þetta mál.

Ég lít öðruvísi á þetta en hv. 2. þm. Árn. Ég álít, að þm. eigi fyrst og fremst að hafa sína eigin skoðun og standa eða falla með henni, en ekki að láta kjósendurna leggja sér til skoðun.

Það er auðsjáanlegt, að hv. þm. skoðar þetta mál eingöngu sem hugsjónamál, þar sem hann heldur því fram, að það skipti litlu, þó það kostaði 2–3 millj. að flytja þingið, og álítur, að hagur þjóðarinnar af því í framtíðinni yrði ekki aðeins tugir millj., heldur hundraða eða jafnvel þúsunda millj. kr. virði.

Hann minntist á, að Alþingi þyrfti að komast úr Reykjavíkurloftinu. Það kemur nú ekki vel heim við skoðanir annara þjóða, sem flestar hafa löggjafarþing sín í stærstu borgunum. Ég skil ekki, hvað Reykjavíkurloftið getur verið þinginu óhollt. Hér býr ¼ hluti þjóðarinnar, og það fólk af öllum flokkum, svo áhrifin ættu þó a. m. k. að vera álíka mikil á allar hliðar, ef þau væru nokkur. Oft er nauðsynlegt að bera þingmál undir álit manna, sem sérþekkingu hafa á einstökum málum. Og ég ber það traust til þm., að þeir láti ekki um of stjórnast af öðrum; en ef svo væri, held ég að þeir, sem áhrif hafa á þá, mundu ekki telja eftir sér að elta þá austur til Þingvalla. Ég álít, að í þessu máli eigi þingið að hafa vit. fyrir þjóðinni, en ekki að láta hana gera ályktun um það að algerlega órannsökuðu máli.