22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Magnús Torfason:

Hv. 1. þm. Reykv. fann sig knúðan til að taka svari kjósenda sinna. Ég lái honum það ekki, en hitt vil ég segja honum, að hann getur alls ekkert dæmt um, hvaða fólk kemur í Skeiðaréttir, enda segist hann ekki hafa verið þar. En ég kann um þetta að dæma, og lögregluþjónarnir, sem ég fékk úr Reykjavík, þeir kunna um það að dæma. Annars hélt ég, að menn gætu skilið, að það er viss tegund af fólki, sem rennir að fara þangað langar leiðir í vonzkuveðri til að hoppa þar undir einu smáljósi alla nóttina. En fyrst hv. þm. líkaði það svo illa, að ég nefndi Reykjavíkurskríl, verð ég að skilja það svo, að það séu betri borgarar Reykjavíkur, sem fara austur. Að öðru leyti get ég vitnað í það, að það hefir margoft verið hætt við að halda mót þarna austur frá, sakir aðsóknar frá Reykjavík. Enda vitum við, að það hefir verið auglýst mót í nágrenni Reykjavíkur, og Reykvíkingum verið bannað að koma á skemmtimót.

Ég skal nefna eitt dæmi um ofríki Reykvíkinga gagnvart þinginu. Það voru búin til lög um Reykjavík og stjórn hennar. Í þeim lögum var ákveðið, að Reykjavík gæti tekið skatt af hverjum manni, sem hér ynni bænum til gagns og góða. Þegar Reykvíkingar með sínu veldi fengu þetta samþ., fóru Hafnfirðingar á stúfana næsta ár til þess að fá sömu réttindi. En þá var þetta steindrepið fyrir Hafnfirðingum. Þá fyrst komst skynsemin að fyrir ofurkappi Reykvíkinga. Síðar komst bæði stj. og þing á þá skoðun, að Reykjavíkurákvæðin væru óhafandi í lögum, og þau voru þurrkuð út. Ég játa fúslega, að Reykjavík leggur mikið af mörkum til þjóðarbúskaparins, en hún sýgur líka allan merg úr þessari þjóð.