22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Jörundur Brynjólfsson:

Ég get lýst yfir því, að mér þykir miður, í hvaða átt umr. hafa snúizt. Ég hefði viljað ganga á snið við að innleiða nokkurn meting og persónulegar skammir á milli hv. þm. Þetta mál er ekkert annað en þjóðræknismál, en vitanlega verður ekki komizt hjá því að rannsaka fjárhagsatriði þess. Um það hefir og nokkuð verið talað, enda þótt umr. hafi aðallega snúizt um þau áhrif, sem þingmenn verði fyrir hér í Reykjavík. Ég hafði búizt við, að flestum hv. þm. væri það ljóst, að þetta mál er einungis þjóðernismál. Allir, sem þekkja sögu okkar, vita, hver mót Þingvöllur og Alþingi á Þingvelli hafa sett á þjóðina og löggjöf hennar um aldaraðir. Og þeir, sem íslenzkum fræðum unna, hafa hyllt þessa þjóð fyrir slíka löggjöf. Kristni var í lög tekin á Þingvelli. Tíundarlög Gizurar biskups voru sett á Þingvelli. Sum af þessum gömlu lögum giltu til skamms tíma. Ákvæði búalaganna, sem gilda enn. eru einsdæmi í sögu veraldar, og eru svo merkileg að raunveruleg vísindi nýrri tíma staðfesta það, sem fornir Íslendingar hafa gert af sínu hyggjuviti. Þó að ekki væri öðru til að dreifa en þessu, er það svo markvert, að það eitt ætti að vera þess valdandi, að þingmenn töluðu sæmilega í þessu máli, flutning Alþingis á Þingvöll.

Sumir hv. þm. hafa látið sér sæma að geta þess til, að fyrir okkur flm. vekti eitthvað annað en við vildum vera láta. Mér þykir miður, að þeir skuli láta sér slíkt um munn fara. Þykir mér þeir færast furðu nálægt þeim mönnum, sem drepið var á hér áðan, að hefðu orðið sér til vansæmdar á ýmsum stöðum.

Þegar það er fyllilega upplýst, hversu mikið þessi flutningur kostar, þá er kominn tími til að taka ákvörðun í þessu máli. Ég get því verið því algerlega samþykkur, að málinu sé vísað til nefndar.

Ég er of kunnugur Reykjavík og Reykvíkingum til þess að mér detti í hug að kasta steini á þá í þessu sambandi, þó að auðvitað sé misjafn sauður í mörgu fé. Það er því fjarri mér að vilja flytja þingið af því, að ég telji óhollt umhverfi þess hér í Reykjavík. Fyrir mér vakir ekkert annað en sú sögulega helgi, sem Þingvöllur á. Ég skal engum getum að því leiða, hvort þingstörfin færu þingmönnum betur eða verr úr hendi á Þingvelli en í Reykjavík. Þó býst ég við, að þm. fengju meira næði til starfa sinna á Þingvelli. Hér hafa ýmsir þm. oft öðrum störfum að gegna, sem ef til vill trufla starf þeirra í þágu þingsins.

Eins og ég hefi tekið fram, stóð ég bara upp til þess að brýna fyrir mönnum, að fyrir okkur flm. er þetta mál einungis þjóðræknismál — ekkert annað.