27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (3615)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Ég mun ekki flytja langt mál að þessu sinni um þessa till. Hún er orðin hv. þdm. allkunn, því að hún lá hér nálega shlj. fyrir síðasta þingi. Var hún borin fram í Sþ., en síðla þings, og fyrir einhver atvik dagaði hana uppi.

Það hefir talazt svo til með mér og hæstv. fjmrh., að málið yrði lagt fyrir þingið nú og vísað til fjhn., og þar sem sú n. mun fá í hendur gögn þau, sem kostur er á, hefir hún það á valdi sínu að leggja fram rökstutt álit sitt um málið, þegar hún hefir athugað það í kyrrð og næði. Vona ég, að n. gefi sér tíma til þess að athuga þetta mál svo, að ekki þvælist það lengur fyrir, enda er tími til kominn, að það verði til fulls á enda kljáð.

Þetta mál er ekkert flokksmál, eins og grg. ber með sér og nöfn þeirra manna, er till. flytja, því að bréf það, sem skráð var eftir þingslit í fyrra, áskorun til hæstv. fjmrh. um að greiða herra Páli Torfasyni það, sem honum kynni að reynast vangoldið af þóknun þeirri, er umsamin var af ríkisstj. fyrir milligöngu hans við enska lánið árið 1921, var undirritað af 24 alþm., þar á meðal formönnum allra flokkanna, forsetum, formönnum nefnda, o. s. frv. Nú hafa bætzt við tveir flm., og eru þá 26 menn af öllum flokkum, sem að þessu standa. Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi þegar í vor haft svo góðan bakhjarl, að það hefði verið vitalaust, þótt hann hefði lagt sinn eiginn dóm á málið og greitt það, sem honum virtist rétt eftir eigin rannsókn. En honum hefir virzt málið nokkuð flókið, og því látið í ljós við mig og herra Pál Torfason, að hann óskaði eftir því, að það yrði borið undir þingið, og þá sérstaklega fjhn. Nd., svo að ákveðin till. kæmi fram frá þingsins hálfu, hvað greiða skyldi.

Ég þarf lítið að reifa þetta mál. Satt að segja er það nokkuð viðkvæmt mál á ýmsar lundir, en eigi fýsir mig að kveikja illdeilur um það hér í deildinni, og vona, að þess þurfi ekki. Vísa ég til skjala þeirra, er fram munu verða lögð. Vænti ég þess, að hv. Nd. og Alþingi vilji nú ljúka þessu máli á þann hátt, að sá maður, sem hér á hlut að máli, verði fullsæmdur af, og það verði rakið svo til rótar, eftir þeim gögnum sem fyrir liggja, að hans hlutur megi bættur verða og hann fái það, sem reynist vangoldið.

Ég lýsi því trausti til hæstv. fjmrh. og hv. n., að málið verði afgr. svo, að menn megi vel við una, ekki einungis þeir, sem hafa ritað nöfn sín á þessi skjöl og þáltill., heldur og sá maður, sem hefir setið yfir skörðum hlut allt of lengi.

Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. skýri málið frá sínu sjónarmiði, og því verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.