27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Fjmrh. (Einar Árnason):

Eins og grg. þessarar till. ber með sér, barst mér á síðastl. vori undirskriftaskjal frá 24 þm., þar sem þeir skora á ríkisstj. að greiða Páli Torfasyni það, sem hann kynni að eiga vangoldið af þóknun, er hann hefði átt að fá fyrir milligöngu um enska lánið 1921.

Út af þessari áskorun fór ég að kynna mér dálítið þetta mál. Það er mjög stór bunki í stjórnarráðinu tilheyrandi þessari lántöku frá 1921. Ég hefi lagt nokkurt verk í að kynna mér málið, og auk þess útvegað nokkur ný plögg í því, til frekari skýringar, sem síðan hafa bætzt við málið. Niðurstaða mín var sú, að þetta mál væri allmjög flókið, og það gæti orkað mjög tvímælis, hvernig því í raun og veru væri varið. En eitt vil ég taka fram, og það er það, að í þessum skjölum liggur fyrir fullnaðarkvittun frá Páli Torfasyni fyrir því, að hann hafi fengið að fullu frá ríkissjóði þá greiðslu fyrir milligönguna, sem honum hafi borið. Þar sem ekki lá alveg greinilega fyrir, hvernig í þessu lægi öllu saman, sá ég mér að lokum ekki fært að verða við þessari áskorun, sem stj. hafði verið send um þetta mál, því það var ekki hægt að sjá, hvort ætti að greiða nokkuð, og þá heldur ekki, ef eitthvað ætti að greiða, hversu mikið.

Nú kemur þessi till. hér fram þannig orðuð, að enn á ný skori þingið á stj. að greiða eitthvað óákveðið, sem kynni að reynast vangoldið. Út af þessu vildi ég taka það skýrt fram, að stj. mun ekki treysta sér til að greiða neitt til Páls Torfasonar, ef þingið ákveður ekki neitt nánara en tiltekið er í till. Ef þingið ætlast til, að stj. greiði eitthvað, verður það að ákveða að fullu, hversu mikla upphæð skuli greiða.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, til þess að flm. gengju ekki að því gruflandi, að það er tilgangslaust að samþ. till. með því orðalagi, sem á henni er, vegna þess, að eftir því verður ekkert greitt úr ríkissjóði.

Ég er sammála hv. 1. flm., að sjálfsagt sé að þetta mál fari til n. og að hún rannsaki þetta mál eftir getu. Ég mun sjá um það, að hún fái öll þau plögg, sem í stjórnarráðinu eru og skýrt geta málið að einhverju leyti.