27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Mér þykir þetta mál ekki fá hlýlegar undirtektir hér. Ég er hræddur um, að þegar málið er flutt hér af 26 þm., muni þeim ekki líka það vel, ef ennþá á að sporna svo í gegn því, að málið verði nú leitt til lykta hér í þinginu.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að hann hefir lagt mikla vinnu í það að tína til ýms gögn í stjórnarráði, og sumt frá útlöndum, til þess að komast að, hve mikið eftir stæði. En ef menn gefa sér tíma til að athuga þessi gögn, munu þeir sjá, að ekki er enn að fullu greitt það, sem samið hafði verið um við aðilja, að hann fengi fyrir milligöngu sína við enska lánið 1921.

Ég skal á þessu stigi málsins ekki fara langt út í þessi efni, en þar sem hæstv. fjmrh. hefir tekið þá afstöðu í þessu máli, að taka ekki til greina áskorun þingmanna nema fram komi ákveðin till. um, hversu mikið skuli greiða, þá er augljóst, að nauðsyn ber til að rannsaka þetta atriði og komast að fastri niðurstöðu um það, hvað með réttu reynist vangoldið, svo sem nú er að orði kveðið í till.

Hæstv. fjmrh. minntist þessa nafnkunna skjals, „fullnaðarkvittunarinnar“. Það er nú svo um hana, að það er löng saga að segja frá því, hvernig hún er til komin, og skal ég ekki fara út í það nú. Ég vona, að n. geti gefið sér tíma til að sjá, hvernig í málinu liggur, þótt hún hafi mikið að starfa.

Hv. 1. þm. N.-M. taldi það enga þýðingu hafa að vísa málinu til n. þeirrar, sem hann er formaður fyrir. En ég vil lýsa því yfir, að ég ber svo mikið traust til formannsins og nefndarinnar, að ég vona, að honum lánist að greiða vel fram úr þessu máli.

Hv. þm. benti á, að þetta væri lögfræðilegt mál og réttast væri að útkljá það fyrir dómstólum. Þetta kann að verða þrautalendingin, ef málið fær ekki framgang á þessu þingi. En það er nú svo um sumar skuldakröfur, að þær eru fullkomlega réttmætar, þótt þær verði ekki viðurkenndar fyrir dómi. Það eru margir þannig gerðir, sem betur fer, að þeir greiða skuldir sínar, ef réttmætar eru, þótt ekki væri hægt að sækja þær að lögum. Og ég treysti því, að elzta og helzta stofnun þessa lands sjái sæmd sína í því að skorast ekki undan að greiða það, sem sanngjarnt er og hver heiðvirður maður mundi gera.

Ég vona því, að þingið líti á þetta mál með sanngirni, en fari ekki að beita neinum lagakrókum, og geri hinum aldraða dugnaðarmanni, sem alls góðs er verður, þau skil, að hann og þingið geti með góðri samvizku vel við unað.

Ég vil ekki vísa þessu máli til fjvn. A. m. k. ekki fyrr en fjhn. hefir haft það til athugunar. Fjvn. mun heldur ekki hafa færra um að fjalla en fjhn., því að hún hefir mest að starfa af öllum nefndum. Annars er mér þetta ekkert kappsmál. Mér er sama, til hverrar nefndar það fer, ef það fær viðunandi afgreiðslu. Ég vona sem sagt, að formaður fjhn. bægi ekki frá sér þessu máli, og ber það traust til n., að hún gefi sér tíma til að afgreiða það, þótt hún hafi mörgu að sinna, því að þetta mál hefir beðið lengi og þarfnast því skjótrar afgreiðslu.