27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér fannst kenna ofurlítils misskilnings hjá hv. 1. þm. N.-M. um afstöðu mína til þessa máls. Mér skildist á honum, að n. gæti ekkert gert í þessu máli vegna afstöðu minnar. En ég vil, að n. geri ákveðnar till. um hvort borga ætti, og þá hversu mikið. Ég skal ekki hafa nein áhrif á, að hvaða niðurstöðu n. kemst um það. Ég lít svo á sem hv. 1. flm., að rétt sé og nauðsynlegt að leiða þetta mál til lykta á þessu þingi, því annars hefir maður þetta mál nokkuð lengi yfir sér. Ég óska ekki annars en að sýnd verði full sanngirni í þessu máli, og eins og hv. þm. N.-Þ. sagði, eru til siðferðisleg lög, sem vel geta komið til mála og rétt að hlíta í þessu máli, þótt svo sé, að það þýði ekki fyrir aðila að fara með málið til dómstólanna.