27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

156. mál, fullnaðarskil við Pál J. Torfason

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Ég þarf litlu að svara því, sem fram hefir komið. Þó skal ég geta þess, að það er ekki nákvæmlega rétt hjá hv. þm. Borgf., að ég hafi sagt, að þetta mál myndi ekki vinnast fyrir dómstólum. Ég legg engan dóm á það. Hitt sagði ég, að það gæti verið réttlátt að greiða þetta fé, þótt svo kynni að fara, að það ynnist ekki fyrir dómstólum.

Ég vil ekki valda neinni sundrung við þessa umr. Ég vona, að málið fái góðan endi hjá n. og að þeir, sem þekkingu hafa á máli þessu, skýri sem bezt fyrir n. torskilin atriði. Ég get búizt við, að n. tali við höfuðaðilja málsins, og getur hún þá ef til vill komizt að samkomulagi við hann og stj., og þyrfti þá ekki frekara samþykki eða meðferð till. sjálfrar í þinginu. Annars hefir n. óbundnar hendur við rannsókn þessa máls.