13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Það er ekki nóg, að hætt sé með öllu að tala um það mál, sem fyrir liggur, heldur er einnig hætt að tala við þá menn, sem sæti eiga á Alþingi, og farið að tala við pallagestina.

Hæstv. forsrh. lét svo ófriðlega; að ég varð hræddur, — ekki þó við hann, heldur um hann. Hann hristi sig allan og skók, baðaði út öllum öngum og hrópaði: „Hérna er sönnunin! Hérna hefi ég í höndunum samninginn fyrir enska láninu, og þar stendur svart á hvítu, að tolltekjur Íslands séu veðsettar!“

Ég verð að segja eins og er, að mér varð ekki um sel, þegar ég heyrði þessa fullyrðingu frá sjálfum forsætisráðherranum. Þó tók ég kjark í mig, gekk yfir til hæstv. forsrh. og fékk þetta skjal lánað. En þegar ég fór að lesa það, varð mér að hugsa til Vestur-Íslendingsins á stofnfundi Eimskipafélags Íslands, sem ætlaði að leggja nokkur hundruð krónur í félagið og sagði með miklum drýgindum: „Komið þið bara; hérna eru peningarnir!“ En peningarnir voru ekki í handraðanum, þegar átti að sækja þá.

Þetta skjal, sem hæstv. forsrh. var að veifa framan í pallagestina, það er aðeins 50 £ nóta, en ekki 500 þús. £ samningur. Þetta er nú svona til vitnis um gaumgæfilega athugun hæstv. ráðh. á málinu.

Hæstv. forsrh. var að dylgja um það, að ég væri að ásaka sendiherra okkar, Svein Björnsson, fyrir afskipti hans af enska láninu. Það hefi ég nú ekki gert, en hæstv. forsrh. hefir gert það. Því að það er upplýst fyrir löngu, að Sv. Bj. skýrði stj., sem hann tók lánið fyrir, frá því, að tolltekjurnar væru ekki veðsettar. Nú heldur hæstv. forsrh. því fram, að tolltekjurnar séu veðsettar, þrátt fyrir yfirlýsingu sendiherrans, og verður það ekki skilið á annan hátt en að Sv. Bj. hafi svikið sína stj., eða farið út fyrir það umboð, sem honum var stílað um lántökuna, og sagt svo rangt frá á eftir.

Ég skal fúslega játa, að ég er ekki lögfræðingur, en þó þykist ég sjá, að þessi 50 £ nóta sé skuldabréf, en ekki samningur um enska lánið. Ef ég legg nú til grundvallar þá gr. samningsins, sem hæstv. forsrh. las hér nýlega upp í löggiltri þýðingu, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að tolltekjurnar eru ekki veðsettar. En eftir skuldabréfinn er ég í dálítið meiri vafa. Þó þykist ég sjá, að sama gildi, hvort við leggjum skuldabréfið til grundvallar eða samninginn, að þessi ákvæði, sem vitnað er í, eigi að skiljast svo, að ef við þurfum að grípa til þess að veðsetja tolltekjurnar, þá fær þessi krafa án frekari samninga forgangsveð í tolltekjunum.

Það er aðgætandi í viðskiptum, að bankar heimta veð. Hitt er líka títt, að þeir lána stundum fé án veðsetningar, en tilskilja þó, að lántakandi veðsetji ekki öðrum eignir sínar. Þetta er að því leyti harðara en hið síðara skilyrði, að hér er sagt: ef þið veðsetjið tolltekjurnar, þá færist okkar réttur upp sem forgangsveð.

Um þýðinguna á þessu ákvæði í skuldabréfinu get ég verið fáorður. Sveinn Björnsson sendiherra hefir margtekið það fram við þá stj., er hann annaðist lántökuna fyrir, að tolltekjurnar væru ekki veðsettar. Sv. Bj. er svo skýr maður, að ekki er gerandi ráð fyrir, að hann hafi ekki vitað, hvað hann var að gera, er hann samdi um lánið. Svo að annaðhvort hefir hann þá skýrt vísvitandi rangt frá, eða tolltekjurnar eru ekki veðsettar. Og því vil ég trúa, enda hefi ég enga ástæðu til að drótta neinu ósæmilegu að sendiherra okkar.