12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (3655)

468. mál, kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði síðast, að ég tala bara fyrir mig, en ekki fyrir flokkinn.

Af því, sem hv. flm. sagði í síðari ræðu sinni, er bara eitt atriði, sem ástæða er til fyrir mig að svara. Hv. flm. fór sem sé að tala um það, hvers vegna ég hefði verið á móti þingmannsráninu í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Og hann sagði, að það hefði verið af því, að ég hefði haldið, að minn flokkur hefði átt það á hættu að tapa einu þingsæti. En þetta var nú ekki svo. Ég gerði grein fyrir ástæðu minni, þegar löggjöf um þetta var rædd. En ég get gjarnan gert það aftur. Ég var á móti þeirri löggjöf af því, að sá hluti kjördæmisins, sem eftir var skilinn, þegar Hafnarfjörður var tekinn frá, var fjölmennari en öll önnur einmenningskjördæmi og fjölmennari en helmingur tvímenningskjördæma. Kjördæmið átti því að réttu lagi að halda sínum tveim þingmönnum, enda þótt Hafnarfjörður fengi sinn. Og með brtt. í þá átt greiddi ég atkv., þegar þessi óhæfilega löggjöf var sett.

Út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, vil ég taka það fram, að mönnum er kunnug sú afstaða núv. stj., að vilja halda aðallega í núverandi kjördæmaskipun. Og mönnum er líka kunnugt af reynslunni, í hverju þetta „aðallega“ felst, sem er í því, að stj. og flokkar hennar eru ávallt reiðubúnir að taka þingmann af sveitakjördæmi, ef þeir halda að þeir geti náð honum frá andstæðingum sínum. — Það er ekki réttlætið, sem verið er að hugsa um, heldur er eingöngu hugsað um flokkshagsmunina. — Þingmannsránið í G.-K. er a. m. k. ekki hægt að réttlæta með öðru en flokkshagsmunum fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.

Þá sagðist hæstv. ráðh. ekki vilja fjölga þm. hér í Reykjavík. Ég held, að nokkuð hafi kveðið við annan tón í þeim herbúðum í síðastl. janúar, þegar verið var að biðla til atkv. Reykvíkinga fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Og ég held, ef þetta mál hefði verið til umr. þá, að ummæli hæstv. ráðh. hefðu orðið nokkuð á aðra leið en nú. Hæstv. ráðh. fór að tala um einhverja till. í þessu máli frá mér. En það er nú bara þetta vanalega, að slíkt komi frá hæstv. ráðh. Við erum orðnir því svo vanir að heyra ýms undarlegheit frá honum, að við kippum okkur ekki lengur upp við það. En ég hefi enga till. borið fram í þessu máli. Hann getur því hvorki verið með né móti neinum till. frá mér, því þær eru ekki til.

Þá lýsti hæstv. ráðh. því, að hann væri andvígur stefnu minni í þessu máli. En ég hefi engri stefnu í því lýst, annari en þeirri, að ég vildi taka sanngjarnt tillit til allra ástæðna, bæði um strjálbyggð í hinum fámennari kjördæmum og eins um atkv.rétt í þeim kjördæmum, sem kjósendum fjölgar mjög i. En ég get auðvitað ekkert hryggzt af því, þótt hæstv. ráðh. hafi með þessum orðum sínum lýst því yfir, að hann sé andvígur stefnu minni, og þar með andvígur sanngirninni í þessu máli. Annars vil ég til viðbótar þessu segja það, að ummæli mín um tölu þingmanna og kjósenda voru sögð í tilefni af ræðu hv. flm. till., en ekki til þess að bera fram neina uppástungu um úrlausn þessa máls. Slíkt liggur ekki fyrir hér. En ég benti á, að jafnvel þótt litið væri bara til kjósendafjöldans, þá hafa kaupstaðirnir, aðrir en Reykjavík, ekki yfir neinu að kvarta, þeir þeirra, sem á annað borð hafa þm. Það er Reykjavík ein, sem hefir ástæðu til að kvarta, ef eingöngu er litið á kjósendatöluna.

Í ummælum hv. flm. fólst, að honum finnst líka þurfa sérstaklega að bæta úr því, ef einhver víðáttumikil kjördæmi eru svo fámenn, að kjósendatala þar verði langt fyrir neðan meðaltal þeirrar kjósendatölu, er kemur á hvern þm. En ég get ekki fylgt honum í því. Landshagir eru svo víða hér á landi, að sum kjördæmi hljóta að verða miklu fjölmennari en önnur. Og mér finnst mannfleiri kjördæmin ekki hafa undan neinu að kvarta, t. d. Akureyri og Ísafjörður, þótt kjósendatala hjá þeim sé hærri en í fámennu kjördæmunum, á meðan þeir eru ekki það langt yfir meðaltal, að sanngjarnt mætti teljast, að þeir hefðu meira en einn þm. Það er sanngjarnt, að hver staður liti til þess, að hans hagur sé ekki stórlega fyrir borð borinn. En svo þarf ekki að vera, þótt staðhættir valdi því, að kjósendatala verði lægri sumstaðar en annarsstaðar.

Hitt er óneitanlega annað atriði, sem grípur inn í þetta og gerir málið margþættara, að með núverandi fyrirkomulagi á kjördæmaskipun verður hlutfallið annað milli þeirrar tölu kjósenda, sem fylgja hverjum flokki, og milli þeirrar tölu þm., sem hver þingflokkur fær. Til þess væri vitanlega sanngjarnt að taka tillit. En það á þó engan veginn heldur að vera eina atriðið, sem öllu ráði í málinu.

Ég skal ekkert um það segja, hvort sú staðhæfing hv. 2. þm. Árn. er rétt, að ekki sé enn tímabært að taka þetta mál til úrlausnar. En ég segi fyrir mig, að ég er ekki viðbúinn að greiða atkv. með till. um breyt. á kjördæmaskipun, sem hljóta að verða afarvíðtækar, eftir því sem till. ber með sér. Náttúrlega mun það koma í ljós, þegar farið verður að ræða það mál, að til eru margar leiðir til að leysa það á sanngjarnan hátt. Má vel minna á það í þessu sambandi, að eitt af því, sem til álita getur komið, er það, hvort nauðsynlegt sé að halda hinum landsk. þm. Um það hefir verið deilt. Og ég efast ekki um, að það mál muni á sínum tíma blandast inn í þetta mál, þegar farið verður af alvöru að tala um það, hvernig eigi að laga það misrétti, sem fram kemur, ekki af því, að sum kjördæmin eru of lítil, heldur af hinu, að sum kjördæmin eru of stór, miðað við tölu þm., svo að þau svipta kjósendur helmingi réttar síns eða meira.

Hv. fim. till. hafa nú heyrt undirtektir hæstv. stj., sem eru á þá leið, að hún vill ekkert sinna þessari till. Og mér er sagt, að sú skoðun hafi verið komin fram áður í hv. Nd., þar sem allir flm. till. eiga sæti.

Ég veit því ekki, þar sem þeim var áður kunnugt um vilja stj., hvaða skrípaleikur það er, sem þeir eru að fremja með því að leggja þetta mál á vald stj. Ég verð að líta svo á, að flm. meini ekkert með þessu, annað en það, að veifa þessu framan í kjósendur og geta látizt eitthvað hafa viljað gera í þessu máli. En það er að vilja ekkert gera í þessu máli, að leggja aðgerðir á því í hendur stj., sem fyrirfram er búin að lýsa því yfir, að hún vilji ekkert í því gera.