15.04.1930
Neðri deild: 83. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (3664)

404. mál, rýmkun landhelginnar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er ekki að ófyrirsynju, að hv. þm. Borgf. vill halda þessu máli vakandi og vita, hvað því líður, því að þetta er eitt af okkar stóru málum. Það vita allir, að það yrði okkur til mikilla heilla og hagsbóta, ef hægt væri að fá landhelgina rýmkaða. En þetta er mál, sem einnig varðar aðrar þjóðir, svo að við getum ekki mælzt þar einir við, og okkur er þýðingarlaust að setja löggjöf um þetta efni, nema aðrar þjóðir vilji viðurkenna hana.

Því verður að reyna samkomulagsleiðina, eins og hv. þm. Borgf. skildi líka. Hann spurði. hvað hefði gerzt í þessu máli síðan í fyrra. Ég verð nú að segja, að það er ekki margt. Vegna þáltill., sem samþ. var hér í fyrra, ræddi ég þetta mál við fulltrúa okkar í Kaupmannahöfn, þá Svein Björnsson og Jón Krabbe, sem hefir fylgt þessu máli vel eftir og var á sínum tíma höfundur að fiskveiðalöggjöfinni. Þeir segja, að ekki sé til nema ein leið til að hrinda þessu máli áleiðis, og hún sé sú, að við getum fært rök fyrir því á vísindalegum grundvelli, að rýmkun landhelginnar sé réttmæt til þess að auka fiskmergð í sjónum til hagsbóta fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir. Til þess að við getum komið þessu fram, verðum við að styðja að vísindarannsóknum á þessu sviði, m. a. í sambandi við Dani, sem hafa haldið uppi slíkum rannsóknum undanfarin ár. „Þór“ fékkst við slíkar rannsóknir síðastl. haust, og býst ég við, að íslenzkt skip verði látið halda þeim áfram svo fljótt sem unnt er. Ennfremur hefir verið gert ráð fyrir samvinnu við Dani í þessum efnum, og við fleiri þjóðir.

Þá má geta þess, að oss var fyrir skömmu boðin þátttaka í alþjóðafundi í Haag í Hollandi, sem á að fjalla um þetta mál. Í samráði við utanríkismálanefnd var Sveini Björnssyni falið að gæta réttar okkar á fundinum og kynna sér hug fulltrúa ríkjanna til þessa máls. Ég gerði mér von um að fá skýrslu frá Sv. Bj. um það, sem gerðist á fundinum, áður en þingi yrði slitið. En á skeyti, sem ég fékk í fyrradag, sé ég, að fundinum hefir ekki verið lokið fyrr en fyrir 3–4 dögum. Skýrslan getur því ekki komið á þessu þingi, og get ég ekki sagt um, hvort hún bendir í áttina eða eigi.

Það er sjálfsagt að taka þá bendingu hv. þm. Borgf. til greina, að nota aðstöðu okkar í sumar til að vinna þessu máli gagn. Þessu máli verður haldið vakandi og við vonum, að stefni í rétta átt, en baráttan fyrir því kostar vinnu og þolinmæði.