16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

231. mál, húsrúm fyrir listaverk landsins

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Ég skal leyfa mér að lesa upp fyrirspurn mína eins og hún er á þskj. 231: „Hvað hefir ríkisstj. aðhafzt í tilefni af ályktun þeirri um húsrúm fyrir listaverk landsins, sem samþ., var í Ed. 11. maí f. á.?“

Eins og hv. dm. muna, bar ég fram hér í hv. d. þáltill. fyrir hönd menntamálaráðsins, þar sem „deildin skorar á ríkisstj. að taka til íhugunar, á hvern hátt verði bezt séð fyrir húsrúmi til þess að geyma í og sýna úrval þeirra listaverka, er landið á og mun eignast framvegis, og leggja tillögur sínar í því máli fyrir næsta þing“.

Þáltill. var samþ., en hæstv. stj hefir, að því er ég veit bezt, ekkert gert til að greiða fyrir þessu máli, og leyfi ég mér því að leggja fram fyrirspurn mína. Ég get verið stuttorð, af því að í fyrirspurninni felst allt það, sem spyrja þarf um, og vona ég, að hæstv. stj. gefi mér svo greið svör, að bæði ég og menn utan þings geti vel við unað.

Þegar þáltill. mín var hér til umr., fylgdi henni allítarleg grg. ásamt bréfi frá menntamálaráðinu, þar sem gerð var grein fyrir, af hverju þáltill. væri fram komin, og hversu mikil þörf væri á að koma upp parti af safnahúsi, þar sem listaverk landsins væru hvorttveggja í senn, vel geymd og aðgengileg almenningi.

Ég skal leyfa mér að skírskota til grg. og framsöguræðu minnar á síðasta þingi, þegar rætt var um till. til þál. um húsrúm fyrir listaverk ríkisins, sem lesa má á þskj. 499 og í D-deild Alþingistíðindanna 1929.

Í lögunum um Menningarsjóð frá 1928 er að vísu gert ráð fyrir, að þegar sérstaklega stendur á, megi leggja fé úr sjóðnum til byggingar húss yfir listasafn ríkisins; jafnframt er í lögum um Menntamálaráð ákveðið, að það skuli vinna að undirbúningi slíks húss. Ég hygg, að þetta verði seinfarin leið. Ég hefi átt sæti í Menntamálaráði frá upphafi, og hefir aldrei verið neitt fé afgangs til þessa. Sú leið er því ófær. Ef nokkur alvara og vit er í að kaupa listaverk, þá þarf hér annara aðgerða. Það sæmir ekki að verja fé til þess að kaupa dýra gripi, nema uppfyllt séu þau skilyrði, að almenningur eigi greiðan aðgang að skoða þá; og listamennirnir sjálfir, sem lagt hafa fram vinnu sína og krafta, gefið nokkuð af sjálfum sér — því að annars væri það ekki list — eiga fyllstu heimting á, að verk þeirra séu geymd þar, sem þau geta orðið almenningi til ánægju og yndis, og um leið öruggt, að þau liggi ekki undir skemmdum. — Ég get tæplega búizt við svo mikilli skyldurækni af hæstv. dómsmrh., að hann hlusti á mig, þó að máli mínu sé stefnt til hans. (Dómsmrh.: Ég fylgist með).

Eins og gefur að skilja, stækkar listasafn landsins óðum. Á síðasta ári var keypt fyrir 13000 kr., aðallega málverk. Á skömmum tíma hefir svo mikið safnazt fyrir, að ógerningur er að koma öllum þessum málverkum fyrir.

Svo sem kunnugt er, var húsnæði Alþingis málað í vetur. Var þá myndum skipað á veggina á nýjan hátt, en um leið fækkað. En hvar á þá að geyma málverkin? Er sæmilegt að hrúga þeim saman uppi á lofti, eins og í skemmu. Ef þeim væri dembt upp á hanabjálka, væri sök sér, því að þá væri einungis syndgað á einn veg, þann, að listaverkin lægju undir skemmdum. En nú er syndgað einnig á annan veg, þar sem málverkum er hrúgað inn í herbergi Jóns Sigurðssonar, svo að þau fylla hvern kima þar, og eru jafnvel látin liggja á rúmi hans. Mér finnst þetta svo mikil óhæfa, að ég get ekki stillt mig um að skora á hv. þm. að sjá svo um, að þetta verði ekki látið við gangast framvegis, að herbergi Jóns Sigurðssonar verði ekki lengur haft fyrir skemmu og ruslakistu. Væri nær að selja muni hans, ef ekki er unnt að geyma þá á friðhelgum stað. Þetta sýnir, að þjóðrækni vor er ekki eins mikil og af er látið — annars væri minningu Jóns Sigurðssonar sýndur meiri sómi.

Á hinn bóginn er þessi aukning listaverka mikið gleðiefni öllum hugsandi mönnum, sem vit hafa og skilning á menningargildi listaverka. Það er svo nýtt, að íslenzka þjóðin geti notið listaverka, að bráðan bug ætti að vinda að því að koma þeim á þann stað, sem vel fer um þau og menn geta notið þeirra. Þetta er sanngirniskrafa og íhugunarefni hv. þm. Listaverk — hversu góð sem þau eru — koma ekki að notum, nema almenningur hafi greiðan gang að þeim.

Þar sem hæstv. dómsmrh. á upptökin að því, að fé hefir fengizt til þessara kaupa, sbr. lögin um Menningarsjóð, þá stendur honum næst að gangast fyrir, að almenningur hafi fyllstu not af kaupunum. Hvaða gagn verður að þeim, ef enginn veit, hvar þau eru niður komin, eða ef þau snúa við baki í skemmunni, sem þau eru geymd í? Ég, sem þó á sæti í Menntamálaráði, veit ekki um helminginn af þeim listaverkum, sem ríkið á. Þætti mér vænt um, ef hæstv. dómsmrh. gæti gefið skýrslu um, hvar þau málverk eru niður komin, sem ekki eru hér í húsinu. Í fyrra gaf ég skýrslu um, hvað ríkið ætti af málverkum, eftir því sem Menntamálaráði var kunnugt um þá. Vænti ég nú, að hæstv. ráðh. gefi fyllri skýring á þessu. Ég vænti og að geta bráðlega skýrt Menntamálaráði frá, hver árangur hafi orðið af þessari fyrirspurn, því að þáltill. frá í fyrra hefir enn sem komið er borið lítinn árangur. Vel getur þó verið, að hæstv. stj. hafi eitthvað aðhafzt í málinu síðan, þótt ekki sé mér það kunnugt, og skyldi það engan gleðja meira en mig.

Þá skal ég leyfa mér að skjóta því fram, hvort ekki sé tiltækilegt, — af því að húsameistari ríkisins er önnum kafinn, með öllu sem á hann er lagt og öllum utanferðunum, sem virðast nauðsynlegar starfi hans og sem eins og allir vita taka mjög mikið af tíma hans frá því starfi, sem hann á að vinna hér heima. Getur hann þá ekki á meðan gert uppdrætti og unnið að öllum þeim húsum, sem stj. hefir með höndum. — Ég vil því leyfa mér að stinga upp á því við hæstv. stj., hvort ekki sé tiltækilegt eða jafnvel nauðsynlegt að gera útboð á uppdráttum til slíkra bygginga. Það er augljóst, að við það vinnst tvennt: fljótari afgreiðsla, og hús þau, sem byggð yrðu í framtíðinni, myndu ef til vill fá annan blæ en kassasvip þann, sem menn eru nú vanastir á opinberum byggingum, og að miklu leyti á húsum einstakra manna. Það væri líka hvöt fyrir unga og upprennandi húsameistara að keppa við húsameistara ríkisins, sem um langt skeið hefir einn teiknað öll hús í þarfir ríkisins, og hljóta þau því að bera á sér nokkuð einhæfan blæ. Hér er að rísa upp allfjölmenn stétt húsameistara, sem fengið hafa góða menntun, og ríður ekki lítið á því, þar sem miklu fé er kostað til húsa — hvort sem er listasafn eða önnur hús —, að þau séu gerð af góðri kunnáttu og smekkvísi og með það fyrir augum, að þau geti staðizt dóm eftirtímans.

Fyrir listamenn vora verður að gera þá kröfu, að verk þeirra séu varðveitt þannig, að þau séu bæði geymd og sýnd. Þá væri hvöt fyrir þá að gera betur, þó að þeir hefðu áður gert vel, og ef til vill gætu þeir þá unnið nýja sigra og lagt undir sig ekki einasta landsmenn hér, svo að þeir yrðu fúsari á að kaupa verk þeirra, heldur mundu og menn erlendis einnig koma auga á þá, og opnaðist þannig nýr markaður fyrir íslenzka list.