15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

278. mál, landsspítalinn

Jón Þorláksson:

Ég ætla ekki að þreyta hv. deild með langri ræðu. Ég mun láta mér nægja að taka einungis það fram, sem ég tel bráðnauðsynlegt, út af þeim umr., sem hér hafa farið fram.

Það er nú eins og vant er með hæstv. dómsmrh., að jafnskjótt og hann tekur til máls, þá getur hann ekki stillt sig um að skíta einhverja út, látna sem lifandi, og lætur sér þá jafnan í léttu rúmi liggja, hvort hann fer með satt mál eða logið. Svo var og um þessa ræðu. Hann sagði, að fyrrv. stj. hefði haft þann sið að svara ekki fyrirspurnum. Þetta vita nú allir, að eru hrein ósannindi, því að fyrrv. stj. svaraði ávallt skýrt og greinilega, og kurteislega jafnan. Hitt má vel vera, að þegar hæstv. ráðh. var þm., þá bar hann fram fyrirspurnir, sem voru svo óþinglegar, að deildin synjaði um leyfi til þess, að þær mættu komast að. Þess vegna má það vel vera, að einhverju af þeim óskapnaði hafi verið látið ósvarað, sem og sjálfsagt var, en venja var það alls ekki.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að samningurinn milli ríkisstj. og landsspítalanefndar kvenna hafi verið í heimildarleysi ger, vegna þess að nefndina hafi brostið löglega aðild. Ég veit nú ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur þessi fráleita speki, því að til heimildarinnar er vísað í upphafi samningsins, og hlýtur hann að hafa séð hann í skjalasafni stjórnardeildarinnar. Enginn hefir ennþá véfengt þessa heimild, svo kunnugt sé; þó hefir samningurinn verið lesinn upp í þinginu og stendur prentaður m. a. í þingtíðindunum. Enginn þm. hefir orðið til þess að mótmæla honum, enda næði slíkt engri átt. Það var svo sem í samræmi við venjulegt hátterni þessa hæstv. ráðh., þegar hann fór að lýsa þessum samningi, þá kallaði hann hann „familíusamning“. Slíkt og þvílíkt er venja þessa manns, er menn skilja nú betur ástæðuna fyrir en fyrstu árin, eftir að hann tók að gefa sig að stjórnmálum. Hann sagði ennfremur, að konur mættu fara í mál, ef þær treystu sér til, því að í samningnum væru engin viðurlög við samningsrofum. Ég sé af þessu, að hæstv. ráðh. er ekki ljóst, að í síðuðum þjóðfélögum er ekki gert ráð fyrir, að sæti í stj. öðlist slíkir menn, að setja þurfi í samninga við ríksstj. sérstök sektarákvæði, til þess að knýja hana til að halda þá. Ég held, að hæstv. ráðh. mætti lengi leita, ef hann ætti að finna slík ákvæði í samningum, þar sem ríki væri annar aðili. Slíkt er alstaðar talið óþarft. Ég vil vona, að þetta sé í síðasta sinn, sem það kemur fyrir þetta land að eiga stjórn, sem er á svo lágu siðferðis- og menningarstigi, að svíkja gerða samninga, jafnskjótt sem hún sér þess kost.

Meðal allra siðaðra þjóða eru það óskrifuð lög, að stjórnum er jafnskylt að halda gerða samninga, hvort sem bætur eru lagðar við samningsrofum eða ekki. Allt annað er talin móðgun við metnað og siðferðiskenndir þjóðarinnar.

Hæstv. ráðh. notaði tækifærið til þess að láta það skilmerkilega í ljós, að byggingu landsspítalans yrði svo sem ekki hraðað né seinkað, hvað sem hér væri talað um þetta mál. Þetta eru digurbarkalæti þess manns, sem hefir alla tilburði til einræðis í landinu, og sem ástæða væri til að gjalda varhuga við, ef tilsvarandi hæfileikar væru að baki þessum tilburðum. En svo held ég að ekki sé, heldur ber að skoða þetta sem talandi vitni um hans vanmáttuga vilja og veilu skapgerð.