15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (3682)

278. mál, landsspítalinn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að það geti ekki vel talizt farið með tíma deildarinnar að ræða þetta mál öllu lengur. Hv. fyrirspyrjandi hefir drepið á flest atriðin, og ég hefi svarað þeim, sem máli skipta og svara eru verð. Verður að sitja við svo búið um þau atriði, sem ekki er hægt að svara, og þeir, sem hafa einhvern særðan metnað í þessum málum, fá heldur ekki fullnæging. Ég ætla mér heldur ekki að svara málalengingum hv. 2. landsk. orði til orðs, enda mætti slíkt æra óstöðugan. Hún sagði þrisvar eða fjórum sinnum, að ræða sín væri léleg af einhverjum öðrum ástæðum en frá ræðumanninum sjálfum. (IHB: Tók fram ástæðuna). Þetta minnir nú á gamla málsháttinn: Árinni kennir illur ræðari. Annars var það um ræðuna að segja, að hún var sízt verri en vænta mátti úr þessari átt, og mun það mála sannast, að enginn hafi ætlazt til meira af hv. 2. landsk. (IHB: Ég held ég bæti mig lítið á að hlusta á þetta).

Þá skal ég snúa mér að því, sem var meginmál í ræðum hv . 2. og 3. landsk., nefnilega, að í samningnum stæði, að landsspítalinn skyldi vera fullger að öllu leyti haustið 1930, en að þetta ákvæði væri þegar brotið af hálfu landsstj. Mér finnst nú þessir hv. þm. óþarflega bráðir á sér, þar sem enn er ekki liðinn nema þriðjungur ársins 1930, og þeir geta ekkert fullyrt um það, hvað verður í árslok þessa árs. Þeir hefðu því átt að bíða með stóryrðin fyrst um sinn og sjá, hverju fram vindur. Auðvitað er þetta aðeins léleg tilraun til málalenginga, sem ég hirði ekki um að elta ólar við. Þetta atriði heyrir framtíðinni til, og er þess vegna ekki tímabært að ræða það að svo stöddu.

Það væri ekki úr vegi í þessu sambandi að skýra nokkuð nánar þennan umrædda samning, og þá sérstaklega afstöðu fjársöfnunarnefndarinnar gagnvart landsstj. og heimild þeirra til þess að setja landsstj. skilmála fyrir afhending söfnunarfjárins. Ekki er því að neita, að þessar mætu konur hafa unnið gott verk, sem sérstaklega er fólgið í því að taka á móti söfnunarfénu og væntanlega leggja það inn í sparisjóðsbók. (IHB: Jæja, þó það!). En þó að hv. 2. landsk. og fleiri konur hafi sýnt þessa frábæru ósérplægni, að taka á sig það ómak, sem af móttöku fjárins leiddi, þá er ekki þar með sagt, að þær hafi haft löglegt umboð til þess að ákveða, hvernig með fé þetta skyldi farið. Það verður hvergi séð, að gefendurnir hafi veitt þessum konum, sem buðu sig fram til þess að taka á móti fénu, umboð til þess að setja hina og þessa skilmála fyrir því, að féð rynni til landsspítalans. Féð er skilyrðislaust gefið til landsspítalans, og þess vegna er fjársöfnunarnefndin skyldug til þess að láta það af hendi til hans. Ég hefi sett það að skilyrði þess, að spítalabyggingunni yrði haldið áfram, að féð yrði umsvifalaust afhent, og konurnar mega vera því viðbúnar, að þær verði lögsóttar til þess að öðrum kosti. (IHB: Gleðiefni!). Þetta framferði þessara mætu kvenna, sem sízt er þeim til sæmdar, er að vísu ekkert einsdæmi, og skal ég nefna annað dæmi, sem mörgum mun vera í fersku minni.

Nokkrir menn tóku að sér að safna hlutafé í nýjan banka. Þeir auglýsa aðeins eitt skilyrði fyrir afhending söfnunarfjárins, nefnilega, að ríkið legði fram 3½ millj. kr. á móti. Þessu skilyrði var fullnægt af hálfu ríkisins. Því næst boðar fjmrh. fund í hlutafélaginu, en þegar kemur til kasta nefndarinnar, þá neitar hún að afhenda féð, nema stj. gangi að vissum skilyrðum, sem aldrei höfðu verið auglýst. Slík frekja er alveg einstök og með öllu óþolandi. En þó keyrir fyrst úr öllu hófi, er nefndin fer að gera sig digra og ætlar að bjóða landsstj. birginn með dólgslegu framferði og digurbarkalátum. (IHB: Ég held ég verði nú að færa mig nær ráðherranum). Já, það er mér sönn ánægja, ef ég get skemmt hv. þm. dálítið þessar síðustu stundir, sem hún situr hér á þingi. Það fer hvort eð er að styttast í okkar samverustundum hér. — Það var sagt um Bergþóru, að hún skammtaði sjálf skyrið hjúum sínum, og lét þau fá mat að vild sinni kvöldið áður en bruninn hófst á Bergþórshvoli. Má segja, að vel færi á að veita Bergþóru þessarar deildar, hv. 2. landsk., nokkur aukahlunnindi í umræðum, áður en eldar þeir, sem íhaldið hefir kveikt til að granda pólitísku lífi þm., ná takmarki sínu. Vil ég í þessu tilefni segja þm. sögu af misskilningi milli karls og konu, sem minnir á hinn ólöglega samning við Jón Magnússon.

Eitt sinn var íslenzkur borgari staddur í Berlín. Hann kynntist þar þýzkri konu, og kom þeim saman um að þau skyldu giftast. Þessi íslenzki maður sagði þá, að þar í borginni væri ílenzkur prestur, sem hann vildi fá til þess að framkvæma hina veglegu giftingarathöfn. Og þýzka konan, brúðurin, hafði vitanlega ekkert á móti því. Þau giftust, en þegar þýzka konan kom með manni sínum hingað heim og vissi ekki annað en hún væri í fullkomlega löglegu hjónabandi, þá var það einn góðan veðurdag, er „hjónin“ voru á skemmtigöngu um bæinn, að konan sér allt í einu nokkuð einkennilegan mann og segir þá strax: Þarna er þá presturinn, sem gifti okkur. — En það sýndi sig þá, að þetta var enginn prestur, heldur einkennilegur læknir úr Rvík. Og þýzka frúin fékk þá að vita, að hún var ekki löglega gift, af því að allt var ólöglegt um undirstöðu hjónabandsins. Eins er það nú um þennan „familíukontrakt“. (IHB: Þetta skil ég ekki). Brúðurin þýzka var í góðri trú. Hún hélt, að hún væri gift. Hún vissi ekki, að hún var svikin og blekkt af manninum, sem þóttist giftast henni. Alveg eins er varið með hv. 2. landsk. Þm. var vélaður og blekktur með „familíu“-samningnum. Þm. er nákvæmlega leikinn jafngrátt og þýzka stúlkan, sem íslenzki læknirinn þóttist gifta. Hér pantaði umboð frá eigendum peninganna til að setja þessi skilyrði. Það fyrsta, sem hv. þm. ætti því að gera, er að höfða mál og vita, hvernig dómstólarnir litu á þetta mál. (IHB: Það getur verið, að það verði gert). Já, ég held, að það væri mjög gott hjá hv. þm., því eftir þeim töfum, sem nú eru á málarekstri hér á landi, má ætla, að það dragi stofnun spítalans um nokkur ár. (IHB: Ekki þegar fimmtardómurinn er kominn!). Getur vel verið, að ein af ástæðunum til þess, að fimmtardómur verði stofnaður, sé að flýta fyrir þessu máli. Þegar fimmtardómur var fyrst settur, var það vegna þess, hve málin gengu illa fram á Alþingi. Og ef þetta giftingarmál íhaldsins verður dregið lengi, getur það orðið til þess að auka nauðsynina til að bæta dóminn. Annars skal ég segja hv. þm. það til hugnunar, að það er ekki hægt að færa nein rök fyrir því, að hægt verði að byrja að starfrækja spítalann á árinu 1930. Það þarf ekki endilega að vera í haust. Ég skal nefna eitt dæmi.

Borgarstjórinn í Reykjavík, sem ég vona, að sé góður vinur hv. fyrirspyrjanda, tók á móti lögum um sundhöll í Reykjavík, þar sem landið veitti Reykjavíkurbæ mikil fríðindi með því skilyrði, að lokið væri byggingu hennar árið 1930. En þetta gekk ekki betur en svo, að nú er fyrst verið að leggja undirstöðuna að þessu verki. Stj. hefir þess vegna orðið að líta meira á nauðsyn verksins en rétt borgarstjóra. Nokkuð af fé bæjarins var líka lokað inni í Íslandsbanka á óheppilegum tíma í vetur, og lítur því illa út um, að bærinn geti staðið við þetta. En núv. stj. hefir mikið langlundargeð, þegar bærinn á í hlut, og ætti hið sama að geta náð til spítalans. Ég er því hissa á móðinum í hv. fyrirspyrjanda, því það er engin ástæða til þess að vera óánægður.

Ég er því hissa, að hv. fyrirspyrjandi skuli játa syndir annara í þessu efni bitna á mér. Mín framkoma í þessu máli er þannig, að ég hefði miklu frekar búizt við traustsyfirlýsingu frá hv. 2. landsk., vegna þess hve málinu hefir verið hraðað og það rekið með svo miklum dugnaði, að einstakt má telja. En það eru aðrir menn hér á landi, sem ekki hafa komið fram eins og þeir hefðu átt að gera, og þar til má telja flokksmenn hv. 2. landsk.

Þessi hv. þm. er nú að enda kjörtímabil sitt sem efsti maður á landskjörslista. Það hefði því verið vel við eigandi, ef konurnar í Reykjavík hefðu skipað henni í það sæti áfram. En þær hafa nú gengið framhjá þessum hv. þm. En eins og Morgunblaðið réttilega tók fram, er þetta rangt. Þessi hv. þm. hefir alltaf reynzt flokki sínum vel, svo að það var eðlilegt að búast við, að þm. yrði í kjöri áfram. En það fór nú svo, að þessi hv. þm. var hundsaður. Hv. þm. sagði áðan, að ég hefði farið á hundavaði, svo ég vona, að það hneyksli ekki hv. þm., þótt ég komist svo að orði. (IHB: Maður er nú vanur ýmsu). Já, frá hv. 2. landsk. (IHB: Nei, frá hv. 1. landsk.). Ég virði á betra veg hina dutlungufullu framkomu þm. og lít á það, hve miklu ræktarleysi þm. hefir orðið fyrir á allan hátt hjá samflokksmönnum sínum, og sem meir en afsakar framkomu þm. nú rétt fyrir hið pólitíska andlát.

Hv. þm. segir, að ég hafi gengið lengra en aðrir í því að brjóta samninga. Ég verð að minna á það, að á sjálfu íhaldsheimilinu hefir Bergþóra þessarar deildar, hv. 2. landsk., verið sett hjá. Og það er engin Hallgerður, sem hv. þm. hefir hér orðið að þoka fyrir, heldur er það að minni skoðun miklu óveglegri frambjóðandi.

Ég álít, að verkefni byggingarnefndar spítalans hafi verið lokið, þegar hún hefir innborgað það fé, sem hv. fyrirspyrjandi hefir gengizt fyrir, að safnað væri um allt land. Þá fannst mér eðlilegast, að það væri önnur nefnd, sem tæki við. Þessi nefnd, starfrækslunefndin, var líka skipuð og hefir starfað af miklum dugnaði. Og eins og eðlilegast var, var landlæknir, sem er einn af greindustu mönnum okkar lands og mesta reynslu hefir í þessu efni, formaður þeirrar nefndar. Í þessari nefnd eru allir þeir læknar, sem gert er ráð fyrir, að starfi við landsspítalann, en í byggingarnefndinni hafði einn af merkustu læknunum verið settur til hliðar, og var það Gunnlaugur Claessen. Kom það sér illa, því að vegna þessarar yfirsjónar, að setja hann hjá, varð að breyta allmiklu í húsinu, vegna röntgendeildarinnar. Hv. 2. landsk. er svo illa að sér að halda, að engin fæðingardeild verði í landsspítalanum, eða að hún sé of lítil. Þar verður fæðingardeild frá byrjun og áreiðanlega nógu stór til að bæta úr þörfum þeirra kvenna hér í þessum bæ, sem eru í þeirri aðstöðu að geta alið föðurlandinu nýja borgara. (IHB: Þetta er ekkert svar við fyrirspurninni. Þetta er allt loddaraleikur). Það er svo lítið um slíkar stofnanir hér á landi, að ég vona, að yfirsetukonunum komi þetta vel. Mér þykir nokkuð hart, að hv. þm. skuli vanþakka mér bæði þegar ég svara og ekki svara.

Ég hélt því fram við formann byggingarnefndarinnar gömlu, að þessar 2 nefndir ættu að starfa samhliða. En ég veit ekki, hvernig stóð á því, að formaður byggingarnefndar vildi ekki halda áfram, þó að ég tæki ítarlega fram, að sú starfsgrein ætti að halda áfram.

Ég held, að ég þurfi ekki að svara hv. 3. landsk. neinu. Þó hélt ég, að hv. þm. hefði neitað því, að fyrrv. stj. hefði ekki svarað fyrirspurnum. En það var algengt í tíð fyrrv. stj., að hún gerði það ekki. Núv. stj. hefði ekki átt að svara þessari fyrirspurn, og það því fremur, sem hún er nauðaómerkileg og meir en óþörf. Ég vildi aðeins gera það fyrir kurteisissakir, en mér hefir verið það illa þakkað af hv. flm. og flokki hans, sem hefði getað komið því til leiðar, að hv. 2. landsk. hefði verið efstur á lista flokksins við næsta landskjör, og launað þm. þannig langa og dygga þjónustu við þau mörgu mál flokksins, sem verið hafa til ógagns þessari þjóð.