15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3684)

278. mál, landsspítalinn

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. 3. landsk. er nú búinn að taka allt fram, það er máli skiptir og hægt er að festa hendur á í ræðu hæstv. dómsmrh., bæði að því er snertir fyrirspurn mína og þann óhæfilega loddaraleik, sem þessi hæstv. ráðh. sýnir, þegar hann er að svara fyrirspurninni. Það er raunalegt fyrir okkur, íslenzku þjóðina, að hún á þessu merkisári skuli hafa þann mann fyrir ráðh., sem hvorki getur talizt ábyrgur orða sinna eða gerða.

Þessi hæstv. ráðh. hefir í kvöld beint til mín þeim orðum í svarræðu sinni, að engum siðuðum manni sæmir slíkt. Ég hefi tekið þessu með því jafnaðargeði, sem sá maður verður að hafa, er oft á orðastað við menn af því tægi, sem hæstv. dómsmrh. er. Hvað svo sem segja má um andlegt ástand hæstv. ráðh., þá getur líklega engum blandazt hugur um, að heilbrigða réttarmeðvitund hefir hann ekki. Hann meira að segja skortir auðsjáanlega bæði réttlætistilfinningu og ábyrgðartilfinningu. Allt þetta kom nú eins og svo oft áður fram í ræðu hans. Ég mun því ekki lengja mikið mál mitt við hæstv. ráðh.

Eins og hv. 3. landsk. réttilega tók fram, hefir hæstv. ráðh. nú í kvöld beitt sinni gömlu aðferð og hvergi komið nærri því efni, sem fyrir liggur.

Hæstv. ráðh. ætlaði að gera hv. dm. nokkra skemmtun og fór að tala um einkamál mín; sagði, að ég væri í önugu skapi yfir því að vera ekki í kjöri við næsta landskjör. Ég verð að segja hæstv. ráðh., að ég þarf ekki að gera honum nein skil fyrir því. Ég ætla aðeins að segja honum það, að það var eftir minni ósk, að svo er. Þó má vel vera, að við eigum enn eftir að hittast á þessum sama vettvangi, og mun ég þá sýna honum lit á því, sem ég nú ekki svara til fulls. En áður en ég sezt niður, vil ég taka það fram, að við í stjórn landsspítalasjóðs Íslands höfum gert meira en að taka við samskotafé og leggja það inn á viðskiptabók. Það sýnir mjög grunnfærni hæstv. ráðh., eða þá að hann talar móti betri vitund, er hann heldur því fram, að til þess að safna saman 300 þús. krónum þurfi ekki annað en sitja aðgerðalaus og taka á móti því, sem að manni er rétt. Þori ég að fullyrða, að hæstv. dómsmrh. hefði ekki enzt til þess að halda áfram þannig fjársöfnun í jafnmargar vikur og þau ár eru nú orðin, sem landsspítalasjóðsstjórnin hefir starfað að fjársöfnun sinni, og verður aldrei afsannað, að það er ísl. konum að þakka, að landsspítalinn, þessi nauðsynjastofnun, er þó, þrátt fyrir allt, komin þetta áleiðis. Ég veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. getur skilið það, en eins og hv. 3. landsk. tók fram, var það bein skylda landsspítalasjóðsnefndarinnar að ganga frá samningunum á þann hátt, sem hún gerði.

Það verður aldrei veglegur minnisvarði í stjórnmálasögu hæstv. ráðh., að hann hefir farið jafnósæmilegum orðum um þessa starfsemi íslenzkra kvenna sem hann hefir gert. Og þá viðurkenningu á starfi þeirra í þágu eins hins mesta knýjandi nauðsynjamáls þjóðarinnar, sem felst í samningi fyrrv. stj., hafa allir beztu menn þingsins viðurkennt í orði og verki. En hæstv. ráðh. er svo innrættur, að hann hefir aldrei sett sig úr færi til þess að kasta skarni á þessa starfsemi kvenna.

Hæstv. ráðh. sagði að vísu eitthvað á þá leið, að konur hefðu unnið þarna þarft verk; m. ö. o., hann sá sér ekki annað fært en að viðurkenna starf okkar í öðru orðinu. En í öðru veifinu viðhafði hann ýms ummæli, sem ég hygg, að hefði varðað við lög, ef þau hefðu verið viðhöfð utan þinghelginnar. Veit hann bezt sjálfur, hvernig sá dómur hefði fallið. (JBald: Má ekki ganga til dagskrár?).