15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3689)

278. mál, landsspítalinn

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Ég var búin að svara hæstv. ráðh. því áðan, að ég mundi ekki eltast við þau orð, sem snerta mig persónulega, og ætla ég að standa við það.

Hv. 4. landsk. talaði nú um spítalamálið frá sínum bæjardyrum. Hann sagði beinum orðum, að hann virti samninginn ekkert út af fyrir sig; það væri einungis fjárveitingin í fjárlögum, sem fyrst kom fram 1926, að ég hygg, sem hann meti nokkurs.

Þessu er því að svara, að bæði hefir hv. 3. landsk. og hv. þm. Snæf. bent á það með óhrekjandi rökum, að samningurinn er fyrst og fremst það plagg; sem bindur bæði núv. og komandi ríkisstjórnir til að framkvæma það, sem í samningnum felst. Það er ekki hægt að komast framhjá því, að það er samningurinn, sem æfinlega á öllum tímum hefir ráðið því, að spítalinn er kominn þetta áleiðis með framlagi úr spítalasjóði þeim, sem konur hafa stofnað og hafa fullt umboð til að ráðstafa eins og þær hafa gert. Það hefir heldur ekki heyrzt nokkur rödd um það, að spítalasjóðsstjórnin í Reykjavík hafi varið því fé öðruvísi en í fullu samræmi við það, sem hún tók að sér að gera, þegar sendir voru fjársöfnunarlistar um allt land, inn á hvert heimili, til að safna fé í þessu skyni. Mér er óhætt að fullyrða, að það fé, sem eftir er í landsspítalasjóði, og er alls kr. 54,057,48, er vel tryggt. Það er tryggt í verðbréfum aðallega í Landsbanka Íslands. Það er ennþá í vörzlum spítalasjóðsnefndarinnar og er þar með fullum rétti. Hún er búin að leggja fram það fé, sem lofað var, þegar samningur var gerður.

Ég vil nota tækifærið til að hrekja það, sem hæstv. dómsmrh. sagði og fleiri hafa sagt úr þeim herbúðum, að nú mundi áhugi þeirra kvenna, sem stóðu að stofnun landsspítalasjóðsins, vera farinn að þverra. Á árinu 1928 ætlaði sjóðsnefndin að halda samkomu í fjársöfnunarskyni á Arnarhólstúni og höfðum við loforð hæstv. forsrh. fyrir túninu, en því loforði brá sá hæstv. ráðh. (Forsrh.: Það eru ósannindi?). Nei, það er sannleikur, þó að ekki hafi verið vottar að samtalinu. Þetta tel ég skyldu mína að láta koma fram, út af þessum dylgjum um áhugaleysi og athafnaleysi í þessu máli.

Ég get ekki látið hjá líða að drepa á það, sem hæstv. dómsmrh. sagði í dag, að það væri þjóðarmein að þurfa að notast við þann spítala, sem menn hafa orðið að sætta sig við, nefnilega Landakot. Það var tekið fram af hv. þm. Snæf., og ég er honum alveg sammála, að það sé ekki þjóðarmein í sjálfu sér að þurfa að notast við spítalann, en hitt væri þjóðarmein, að þurfa að notast við svo lítinn spítala, sem getur engan veginn fullnægt þeim fjölda manna, sem þurfa að sækja hingað til Reykjavíkur til að fá bót meina sinna. Og það getur heldur ekki talizt annað en þjóðarminnkun, þegar þetta mál er þó komið þetta langt sem nú, að taka ekki sporið út með þeim áhuga og „föstu tökum“, sem þurfa til þess að spítalinn komi sem fyrst til notkunar. Nú veit ég með vissu, og hefi það eftir beztu heimildum, að nú bíða fimmtíu sjúklingar í nágrenni Reykjavíkur, sem ekki er með nokkru móti hægt að veita viðtöku þar. Séu mannslíf og heilbrigði nokkurs virði, þá ætti hæstv. dómsmrh. að gera sér það ljóst, að það er lífsnauðsynlegt að hraða byggingu og útbúnaði landsspítalans svo sem mögulegt er. Og því meir eykst ábyrgðin sem lengra líður, — með hverjum mánuði, hverri viku; og ég leyfi mér að staðhæfa, að allur dráttur og vanræksla er blátt áfram glæpur.