15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

278. mál, landsspítalinn

Halldór Steinsson:

Ég kann ekki við þetta hól hjá hæstv. dómsmrh., sem að nokkru leyti kom fram hjá hv. 4. landsk. Hann vildi halda fram, að Íhaldsflokkurinn gamli hefði sett sig á móti málinu. Ég vísa þessu a. m. k. algerlega frá mér. Ég var í Íhaldsflokknum, og frá því fyrsta að þetta mál kom fram á þingi, hefi ég alltaf stutt það, eftir því sem mér var hægt. Síðan málið var fyrst borið fram, hefir það verið stutt af góðum mönnum úr öllum flokkum, en aldrei verið neitt flokksmál. Ég skal segja það hv. 4. landsk. til lofs, að hann var einn af þeim góðu stuðningsmönnum, en þó ekkert betri en margir aðrir. Nei, það er eins og hver önnur ósanngirni að eigna sérstökum flokki nokkra óvild í þessu máli. Ennfremur er það upplýst, að hæstv. dómsmrh. var einn af þeim góðu stuðningsmönnum þessa máls á sínum tíma, en það er alls ekki honum að þakka, að þessi áætlun var færð niður. Síður en svo. Hún var lögð fyrir fjhn. þingsins, og þær komust að þeirri niðurstöðu, að landinu væri ofvaxið að reyna að byggja svo dýrt. Á þeim árum, þegar var verið að berjast við að koma þessu máli í framkvæmd, þá komu, eins og hæstv. ráðherra man, á hverju þingi fram þáltill., sem gengu flestar í þá átt að hraða þessu máli, en sumar voru um fyrirkomulagsatriði. Ég gat ekki séð, að hann frekar öðrum ætti upptökin að því að hrinda málinu áleiðis, en ég viðurkenni það, sem satt er, að hæstv. ráðh. hafði á þeim árum talsverðan áhuga fyrir málinu. Og hefði hann haldið því máli vakandi, hefði þessi fyrirspurn aldrei komið fram. Það er öllum vitanlegt, og þarf ekki að deila um það, að það eru kvennasamtökin, og þá fyrst og fremst hv. 2. landsk., sem hefir verið aðalkrafturinn í þessu máli. Það er hann og kvenfélögin í landinu, sem hafa komið þessu öllu af stað. Og það er hverjum um megn að draga þann heiður af þeim.