15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

278. mál, landsspítalinn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla aðeins að leiðrétta það, sem hv. þm. Snæf. sagði um mína afstöðu. — Ég hefði ekki farið að minnast á gang málsins fyrir nokkrum árum, hefði ekki verið veitzt að mér fyrir það að láta vinna að spítalanum með allri skynsamlegri orku. Jafnver margir af þeim kröfuhörðustu eru fyllilega ánægðir með gang verksins og frágang allan.

En hv. þm. Snæf. vil ég benda á það, úr því að hann endilega vill fara út í mannjöfnuð, að þær tvær aðalhugmyndir, sem spítalinn er byggður á, sem gerðu það að verkum, að þingið tók málið að sér, þær komu fram í fyrsta skipti frá mér á þingi 1923, nefnilega að minnka spítalann og gera hann viðráðanlegan og leita samkomulags við Reykjavík um hitaleiðslu, til þess að létta þeim 70 þús. kr. árlega lið af. Síðan flutti ég till. með hv. 2. landsk. árið eftir, og allir geta séð, hver lagði til efnið í þá till. Það var mín hugsun, sem skjalfest var í ræðum mínum 1923, um stærð spítalans og rekstrarkostnað í þessu stórkostlega atriði. — Þetta bjargaði málinu.