08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

223. mál, gengisviðauki

Frsm. (Hannes Jónsson):

Eins og hv. þdm. sjá, er þetta frv. flutt að tilhlutun fjmrh., og er ekki annað en framlenging á gildandi lögum. Að sjálfsögðu getur ríkissjóður ekki misst af þeim tekjum, sem lög þessi ákveða. Þessi gengisviðauki kemur fram af áfengistolli 440 þús. kr., af tóbakstolli um 1 millj., af aðflutningsgjaldi 250 þús., af vitagjaldi 450 þús., og af afgreiðslugjaldi um 200 þús. Það verður samtals 2.320 þús. kr.

Það þarf þá ekki langt mál um þetta. Allir sjá, að þegar um svo mikið fé er að ræða, verður að gera annaðhvort af tvennu, að samþykkja framlengingu þessarar löggjafar eða útvega ríkissjóði tekjur á annan hátt. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða fyrir hönd n., að hún sjái sér ekki fært að leggja til, að þessara tekna yrði aflað á annan hátt frekar.