09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

238. mál, útvarp

Jón Auðunn Jónsson:

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði um það, að hann álíti, að nauðsynlegt væri, að útvarpið hefði sjálfstæða yfirstjórn, vil ég þó segja það, að samband hlýtur að verða og þarf að verða milli útvarpsins og loftskeytastöðvarinnar. Hið fræðilega eftirlit þarf að vera hið sama. Mér skilst einnig, að útvarpsstjórinn vilji semja við landssímann um það. Þetta verður líka þeim mun eðlilegra og sjálfsagðara, þar sem ekki er um nema einn slíkan sérfróðan mann að ræða hér á landi. (Forsrh.: Hann starfar að hálfu hjá landssímanum og að hálfu hjá útvarpinu): Ég álít, að það væri réttara, að hann væri starfsmaður landssímans og falið þetta starf við útvarpið af landssímastjóra. Með því að skipta starfinu í tvennt, verður um aukastarf að ræða, sem hæglega getur leitt til þess, að hér verði stofnuð tvö embætti. Og hér verður vitanlega um fleiri störf og stöður að ræða, við tvískipta yfirstjórn og tvískipt fjárhald. Væri þetta, eins og ætlazt var til, falið landssímanum, þá mundi vera hægt að framkvæma það ódýrara, því allt bókhald og starfræksla verður ódýrari í stórum skrifstofum. Ég held nú, að stj. sé búin að gera svo mikið að því að skapa nýjar stöður, að henni ætti að vera það sjálfri hollast, að gera nú ekki meira að því að sinni.

Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að ekki myndi verða talið heimilt að búa til tæki hér innanl. til sölu. En það er undarlegt að vilja leggja slík höft á þann vísi til innlends iðnaðar, sem hér gæti verið um að ræða. Við eigum ýmsa hagleiksmenn, sem eflaust geta unnið að þessu. Mér er kunnugt um einn slíkan mann. Það er loftskeytamaðurinn á togara þeim, er ég hefi meðgerð með. Hann hefir búið til talsímatæki. Er prýðisvel hægt að tala með því milli Stykkishólms og Vestmannaeyja. Og hann hefir einnig smíðað móttökutæki, sem heyrist ágætlega með, en eru þó helmingi ódýrari en þau eru seld erlendis. Hér er því verið að bægja mönnum frá því að koma á fót innlendum iðnaði. Er það hart, þegar þess er gætt, að mikið verður keypt af þessum tækjum á næstu árum. Er ekki hægt að telja það neinn þjóðarhag, að verða að kaupa þau öll frá útlöndum, þegar vitað er, að mikið má vinna að þessu hér heima.